Fótbolti

Karaktersigur Real Madrid gegn Sevilla

Aron Guðmundsson skrifar
Rodrygo fór mikinn og skoraði bæði mörk Real Madrid í leik kvöldsins
Rodrygo fór mikinn og skoraði bæði mörk Real Madrid í leik kvöldsins Vísir/Getty

Leikmenn Real Madrid sýndu í kvöld mikinn karakter er liðið vann endurkomusigur á Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni. Lokatölur á Ramón Sánchez Pizjuán, 2-1 sigur Real Madrid. 

Bæði lið höfðu svo sem að litlu að keppa í leik kvöldsins, Real Madrid hefur tapað titlinum til erkifjenda sinna í Barcelona á meðan að einbeiting Sevilla er líklega komin á úrslitaleik liðsins í Evrópudeildinni gegn Roma í næstu viku. 

Sevilla byrjaði leik kvöldsins betur því strax á 3. mínútu kom leikmaður liðsins, Rafa Mir, boltanum í netið. 

Forysta Sevilla stóð yfir í rúmar 26 mínútur því að á 29. mínútu kom Rodrygo boltanum í netið og jafnaði leikinn fyrir Real Madrid. 

Staðan orðin jöfn og þannig hélst hún alveg fram að 69. mínútu þegar að Rodrygo var aftur á ferðinni og skoraði annað mark sitt og Real Madrid í leiknum. 

Reyndist þetta sigurmark leiksins en undir lok leiks fékk Marcos Acuna, leikmaður Sevilla að líta rauða spjaldið. 

Sigur Real Madrid gerir það að verkum að liðið situr í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 77 stig. Sevilla er í 10. sæti með 49 stig. Eini möguleiki Sevilla á Evrópukeppni á næsta tímabili felst í því að liðið beri sigur úr býtum gegn Roma í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í næstu viku. 

Sigurvegari þess leiks fær að launum sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×