Southampton og Liverpool gerðu 4-4 jafntefli er liðin mættust í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.
Fyrir leik var orðið ljóst að hvorugt lið gat hreyft sig í töflunni, Southampton löngu fallið og fast í botnsætinu og Liverpool fast í fimmta sæti.
Það voru gestirnir í Liverpool sem byrjuðu betur og Diogo Jota og Roberto Firmino sáu til þess að gestirnir voru komnir með 2-0 forystu strax á 14. mínútu.
James Ward-Prowse minnkaði hins vegar muninn fyrir heimamenn fimm mínútum síðar áður en Kamal-Deen Sulemana jafnaði metin eftir hálftíma leik.
Sulemana var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik áður en Adam Armstrong skoraði fjórða mark heimamanna eftir rúmlega klukkutíma leik.
Partýið var þó ekki búið og Cody Gakpo minnkaði muninn fyrir Liverpool á 73. mínútu og Diogo Jota fullkomnaði endurkomuna mínútu síðar og þar við sat.
Niðurstaðan því 4-4 jafntefli í þýðingarlitlum, en fjörugum leik.