Innlent

Segir að um „víð­tæka og kostnaðar­sama að­gerð gegn vöru­merki fé­lagsins“ sé að ræða

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir listgjörning Odds Eysteins Friðrikssonar víðtæka og kostnaðarsama aðgerð gegn vörumerki félagsins. Hann segir Samherja hafa leitt hjá sér túlkanir á list og tjáningarfrelsi meðan hann verji mikilvæg vörumerki félagsins.

Á vefsíðunni samherji.co.uk hafði Oddur, sem gengur undir listamannsnafninu Odee, skáldað afsökunarbeiðni Samherja. Félagið hefur verið sakað um mútugreiðslur til namibískra stjórmálamanna. Verkið ber nafnið „We‘re Sorry“.

Síðunni var lokað þegar Samherji fékk bráðabirgðalögbann á hana og Oddi gert að afhenda Samherja lénið. 

Oddur segir hlut samherja í málinu ofbeldi og þvinganir í samtali við Heimildina. „Samherjamenn eru þekktir fyrir ofbeldi gegn blaðamönnum, embættismönnum, listamönnum, hverjum sem gagnrýna þá.“

Þorsteinn gaf frá sér yfirlýsingu á vefsíðu Samherja í tengslum við málið. 

„Eins og sjá má af framansögðu liggur fyrir að ráðist hefur verið í víðtæka og kostnaðarsama aðgerð gegn vörumerki félagsins,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingin í heild sinni :

„Í ljós hefur komið að svokallaður „listgjörningur“ með misnotkun á vörumerki Samherja náði til til þriggja heimsálfa og var tilraun til misnotkunar send til 100 fjölmiðla á Íslandi, Noregi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Ástralíu.

Samherji fékk vitneskju um þessa víðtæku misnotkun þegar félagið fékk lagt lögbann við ólöglegri notkun vörumerkja félagsins meðal annars við notkun á léni í nafni Samherja í Bretlandi sem áður hefur verið sagt frá.

Í upphafi lögbannskröfunnar var veittur hæfilegur frestur til varna og nú hefur forsvarsmaðurinn ráðið þrjá lögmenn í Bretlandi til að gæta hagsmuna sinna.

Eins og sjá má af framansögðu liggur fyrir að ráðist hefur verið í víðtæka og kostnaðarsama aðgerð gegn vörumerki félagins.

Samherji hefur eingöngu beint sjónum sínum að því að verja mikilvæg vörumerki sín svo sem öll fyrirtæki myndu gera hvarvetna í heiminum en leitt hjá sér túlkanir á list og tjáningarfrelsi.

Samherji hf.

Þorsteinn Már Baldvinsson.“


Tengdar fréttir

Fölsk af­sökunar­beiðni Sam­herja reyndist loka­verk­efni í LHÍ

Fölsk af­sökunar­beiðni í nafni Sam­herja, vef­síða og yfir­lýsing þar um var loka­verk­efni lista­mannsins Odds Ey­steins Frið­riks­sonar, sem kallar sig Odee, í Lista­há­skóla Ís­lands. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lista­manninum.

Ekki Samherji sem biðst afsökunar

For­svars­menn Sam­herja segjast ekki vera að baki heima­síðu sem ó­prúttnir aðilar hafa búið til í nafni fyrir­tækisins. Á heimasíðunni má finna falsaða fréttatilkynningu þar sem beðist er afsökunar á framferði Samherja í Namibíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×