Innlent

Odee sætir lög­banni í Bret­landi og þarf að af­henda Sam­herja verk sitt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðrir hlutar gjörningsins, utan vefsíðunnar, eru til sýnis í Listasafni Reykjavíkur.
Aðrir hlutar gjörningsins, utan vefsíðunnar, eru til sýnis í Listasafni Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Oddur Eysteinn Friðriksson, sem gengur undir listamannsnafninu Odee, hefur neyðst til að taka niður vefsíðuna samherji.co.uk sem hýsti gjörning hans We're Sorry, eftir að Samherji fékk bráðabirgðalögbann á síðuna.

Þá ákvað dómari í Bretlandi einnig að Odee þyrfti að afhenda Samherja lénið en skikkaði fyrirtækið til að gera ekkert með það þar til niðurstaða lægi fyrir í málinu.

Það er Heimildin sem greinir frá.

We're Sorry var útskriftarverkefni Odds við Listaháskóla Íslands en um var að ræða skáldaða afsökunarbeiðni Samherja vegna framgöngu fyrirtækisins í Namibíu, þar sem það hefur meðal annars verið sakað um mútugreiðslur til stjórnmálamanna.

Listamanninum var stefnt fyrir dóm 19. maí síðastliðinn en var þá staddur hérlendis og gat ekki gripið til varna. Hann er hins vegar kominn með lögmann í málið.

„Þessi aðför Samherja, að mínu mati, er bara ofbeldi af þeirra hálfu og þvinganir. Þeir eru að reyna að valta yfir mig með sömu aðferðum og þeir hafa beitt áður. Samherjamenn eru þekktir fyrir ofbeldi gegn blaðamönnum, embættismönnum, listamönnum, hverjum sem gagnrýna þá,“ segir Oddur meðal annars í samtali við Heimildina.

Hann segir hin „ofsafengnu“ viðbrögð þó ekki hafa komið sé á óvart.

„Þetta er í takt við það sem þeir hafa sýnt af sér áður, samanber skæruliðadeild Samherja.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×