Lífið

Fölsk af­sökunar­beiðni Sam­herja reyndist loka­verk­efni í LHÍ

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Listamaðurinn Odee ásamt flennistórri veggmynd þar sem beðist er afsökunar í leturgerð Samherja.
Listamaðurinn Odee ásamt flennistórri veggmynd þar sem beðist er afsökunar í leturgerð Samherja. Vísir/Vilhelm

Fölsk af­sökunar­beiðni í nafni Sam­herja, vef­síða og yfir­lýsing þar um var loka­verk­efni lista­mannsins Odds Ey­steins Frið­riks­sonar, sem kallar sig Odee, í Lista­há­skóla Ís­lands. Þetta kemur fram í til­kynningu frá lista­manninum.

Vísir ræddi við Karl Eskil Páls­son upp­lýsinga­full­trúa Sam­herja vegna vef­síðunnar og til­kynningarinnar sem fór í loftið síðast­liðinn fimmtu­dag. Hann sagði fyrir­tækið hafa til­kynnt síðuna til yfir­valda og óskað eftir því að hún yrði tekin niður.

Á vef­síðunni leit út fyrir að um væri að ræða al­vöru vef Sam­herja og var þar beðist af­sökunar á meintu fram­ferði Sam­herja í Namibíu. Leit út sem svo að fyrir­tækið héti betr­um­bót og sam­starfi við yfir­völd vegna málsins.

„Ég er náttúru­lega búinn að þurfa að halda þessu leyndu í ansi langan tíma og á­nægju­legt að þetta sé komið út,“ segir lista­maðurinn Odee í sam­tali við Vísi.

Hann segist vona að Namibíu­mönnum berist af­sökunar­beiðnin. „Sem þeir eiga svo sannar­lega skilið,“ segir listamaðurinn og bætir því við að hér sé á ferðinni listaverk sem feli í sér svokallað menningarbrengl.

Af­sökunar­beiðnin prýðir vegg Lista­safns Reykja­víkur

„Það er kominn tími á að af­henda lyklana að Sam­herja og öllum þeirra fjár­festingum og eignum í Namibíu til Namibíu­manna,“ segir lista­maðurinn Odee í til­kynningu sinni sem send hefur verið til fjöl­miðla. Listaverkið er jafnframt búið að mála á vegg í Listasafni Reykjavíkur.

Þar segir hann að lista­verkið beri heitið „We're Sorry“ og sé gagn­virkt hug­verk og segir hann að vef­síðan sam­herji.co.uk sé ó­að­skiljan­legur hluti af verkinu. 

„Namibía á skilið af­sökunar­beiðni frá okkur. Öll ís­lenska þjóðin gerir sér grein fyrir á­byrgð sinni, vill gera betr­um­bót og leitast eftir fyrir­gefningu. Þetta er af­sökunar­beiðni frá öllu Ís­landi, ekki bara Sam­herja, þar sem við höfum saman leyft þessu arð­ráni að gerast,“ segir lista­maðurinn meðal annars í til­kynningunni.

Hann segist hafa haft verkefnið í maganum í tæp þrjú ár, eða allt síðan hann kláraði síðasta lokaverkefni í skólanum.

„Svo var ég undir áhrifum íslenskra myndlistarmanna eins og Hildar Hákonardóttur, sem hafa verið gagnrýnir á sjávarútveg og kapítalisma um nokkurra ára skeið. Listaverk Hildar, Fiskikonurnar, er til dæmis eitt fallegasta verk sem ég þekki.“

Um er að ræða veggmynd sem er tíu metrar að stærð. Vísir/Vilhelm

Ekki fyrsta loka­verk­efnið til að vekja at­hygli

Eins og áður segir er um að ræða loka­verk­efni hjá lista­manninum í LHÍ. Fyrir þremur árum síðan átti lista­maðurinn einnig loka­verk­efni í skólanum sem vakti tölu­verða at­hygli.

Var þar á ferðinni gjörningur af hálfu Odee sem sendi fjöl­miðlum til­kynningu um að stofnað yrði lág­gjalda­flug­fé­lag, MOM Air. Vakti helst at­hygli hve kynningar­efni fé­lagsins svipaði til flug­fé­lagsins WOW air.

Sagðist Odee í til­kynningu þá hafa undir­búið verk­efnið í tvær til þrjár vikur. Eftir að vef­síða MOM Air hafi litið dagsins ljós hafi verk­efnið öðlast eigið líf, hann hafi fengið fjölda kvartana vegna galla vef­síðunnar, þúsundir bókana, þúsundir fylgj­enda á Insta­gram, fjöldi at­vinnu­um­sókna hafi borist honum, al­þjóð­lega um­fjöllun og svo fram­vegis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×