Fótbolti

Mæta til leiks með ellefu stiga refsingu hangandi yfir sér

Sindri Sverrisson skrifar
Dusan Vlahovic og félagar í Juventus komust í undanúrslit Evrópudeildarinnar en féllu úr leik eftir framlengingu gegn Sevilla.
Dusan Vlahovic og félagar í Juventus komust í undanúrslit Evrópudeildarinnar en féllu úr leik eftir framlengingu gegn Sevilla. Getty/Nicolo Campo

Ítalska knattspyrnusambandið fer fram á að ellefu stig verði dregin af Juventus fyrir að falsa bókhald félagsins á árunum 2019-2021, varðandi kaup og sölur á leikmönnum.

Réttarhöldin fara fram í dag og samkvæmt frétt Reuters er búist við niðurstöðu síðdegis.

Juventus á einmitt leik fyrir höndum í kvöld, á útivelli gegn Empoli.

Ef engin stig verða dregin af Juventus er liðið svo gott sem öruggt um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð, því liðið er með 69 stig í 2. sæti. Eftir leiki kvöldsins verða tvær umferðir eftir.

En verði ellefu stig tekin af Juventus dregst liðið niður í 7. sæti, eins og staðan er núna, og þyrfti kraftaverk til að komast í hóp fjögurra efstu liðanna og í Meistaradeildina. Liðið gæti hins vegar náð inn í Evrópudeildina eða Sambandsdeildina.

Tímabilið hefur verið rússíbani fyrir Juventus vegna málsins. Fimmtán stig voru dregin af liðinu í janúar en íþróttamálayfirvöld í landinu felldu þá refsingu úr gildi í apríl og fyrirskipuðu ný réttarhöld, svo Juventus fékk þá aftur stigin og komst í Meistaradeildarsæti.

Af Juventus er það einnig að frétta að hörð barátta virðist ætla að verða um framherja félagsins, Dusan Vlahovic. Félagaskiptafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir að Bayern München og Manchester United séu í kapphlaupi um kappann en að ekki sé rétt að Chelsea hafi gert tilboð í hann, eins og fréttir hafa verið um, þó að áhugi sé á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×