Fótbolti

Fjölskylduferð foreldranna opnaði dyrnar inn í bandaríska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Folarin Balogun fagnar einu marka sinna fyrir Stade de Reims.
Folarin Balogun fagnar einu marka sinna fyrir Stade de Reims. Getty/Sylvain Lefevre

Folarin Balogun hefur fengið grænt ljós frá Alþjóða knattspyrnusambandinu og má hér eftir spila fyrir bandaríska landsliðið.

Balogun verður því væntanlega með bandaríska landsliðinu á HM á heimavelli árið 2026.

Hin 21 árs gamli Balogun er leikmaður Arsenal en á láni hjá Reims í frönsku deildinni. Hann hefur skorað nítján deildarmörk á tímabilinu og er í hópi markahæstu manna.

FIFA samþykkti beiðni Knattspyrnusambands Bandaríkjanna að færa knattspyrnuþjóðerni hans frá Englandi yfir í Bandaríkin. Hann mætti líka spila fyrir Nígeríu en hefur valið bandaríska landsliðið.

Balogun er fæddur í Brooklyn í Bandaríkjunum en foreldrar hans eru frá Nígeríu og hann ólst upp í London í Englandi.

„Foreldrar mínir voru í fríi í Brooklyn í nokkra mánuði af því að við áttum fjölskyldu í New York. Stuttu eftir að ég fæddist þá fluttum við öll aftur til London,“ sagði Folarin Balogun meðal annars í viðtali við heimasíðu frönsku deildarinnar.

„London er mín borg, þar ólst ég upp og þar eru vinir mínir. Ef fólk spyr mig hvaðan ég sé þá svar ég England. Ég er samt blanda af öllum þessum menningarheimum,“ sagði Balogun.

Balogun lék með yngri landsliðum Englands og Bandaríkjanna en festi sig í sessi hjá enska 21 árs landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×