Erlent

Sex látnir í elds­voða á gisti­heimili í Wellington

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla segist gera ráð fyrir að tala látinna muni hækka.
Lögregla segist gera ráð fyrir að tala látinna muni hækka. AP/NewsHub

Að minnsta kosti sex eru látnir og ellefu er saknað eftir að eldur braust út á gistiheimili í Wellington á Nýja-Sjálandi. Fleiri en 50 var bjargað úr byggingunni.

VIðbragðsaðilar voru kallaðir að hinu fjögurra hæða Loafers Lodge rétt eftir miðnætti að staðartíma. Efsta hæða hússins reyndist alelda og um tuttugu slökkviliðsbílar voru kallaðir á vettvang.

Yfirmaður almannavarna sagði eldsvoðann „verstu martröð“ Wellington. Þá væri asbest í byggingunni og íbúar í nágrenninu hvattir til að loka gluggum og bera grímur til að forðast að anda að sér reyknum.

Að minnsta kosti fimm var bjargað af þaki gistiheimilisins en einn slasaðist alvarlega þegar hann stökk fram af þriðju hæð til að forðast eldinn. Lögregla segist gera ráð fyrir að fleiri eigi eftir að finnast látnir.

Loafers Lodge hafði verið skilgreint sem neyðarhúsnæði og meðal þeirra sem dvöldu þar voru atvinnu- og heimilislausir einstaklingar. Þá herma fregnir að meðal íbúa hafi verið einstaklingar sem höfuð verið sendir úr landi í Ástralíu.

Rannsókn stendur yfir á eldsupptökum og ekki hefur verið útilokað að um íkveikju hafi verið að ræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×