Fótbolti

Sveindís og stöllur fengu skell og titillinn að renna þeim úr greipum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni í leik dagsins.
Sveindís Jane Jónsdóttir í baráttunni í leik dagsins. Sebastian Gollnow/picture alliance via Getty Images

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg máttu þola stórt tap er liðið heimsótti Eintracht Frankfurt í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur 4-0 og Þýskalandsmeistaratitillinn er nú orðinn fjarlægur draumur.

Sveindís var í byrjunarliði Wolfsburg í dag, en var tekin af velli í hálfleik þegar staðan var þegar orðin 2-0, Frankfurt í vil. Nicole Anyomi skoraði seinna mark heimakvenna eftir að Ewa Pajor hafði orðið fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Laura Freigang skoraði svo tvívegis fyrir Frankfurt í síðari hálfleik og þar við sat. Lokatölur 4-0 og Sveindís og stöllur hennar þurfa nú á kraftaverki að halda til að verja þýska meistaratitilinn.

Wolfsburg situr í öðru sæti deildarinnar með 51 stig þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu, fjórum stigum á eftir Íslendingaliði Bayern München sem trónir á toppnum. Frankfurt situr hins vegar í þriðja sæti með 48 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×