Innlent

Á­form um nýja sela­laug sett á ís

Árni Sæberg skrifar
Núverandi heimili selanna í húsdýragarðinum er ekki talið fullnægjandi.
Núverandi heimili selanna í húsdýragarðinum er ekki talið fullnægjandi. Vísir/Vilhelm

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að fresta framkvæmdum við nýja selalaug í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum um óákveðinn tíma. Framkvæmdir hófust síðasta haust og búið var að grafa stærðarinnar holu þar sem laugin átti að vera. Nú verður fyllt upp í holuna.

Síðasta vor var greinst frá áformum um stórbætta aðstöðu fyrir seli sem búa í húsdýragarðinum. Ný selalaug átti að margfalda það rúmmál sem selirnir hafa til sunds auk þess að gefa þeim möguleika á að kafa á meira dýpi.

Nú hafa framkvæmdir hins vegar verið stöðvaðar og óvíst er með afdrif nýja heimilis selanna. Greint er frá þessu á Mbl.is. Þar er haft eftir Þorkatli Heiðars­syni, deild­ar­stjóra Fjöl­skyldu- og hús­dýrag­arðsins, að málið sé bagalegt en hann hafi litlar upplýsingar um málið.

Búið er að hengja upp skilti á girðingu um holuna, þar sem laugin átti að vera, þar sem gestum er greint frá því að framkvæmdum hafi verið frestað að ákvörðun Reykjavíkurborgar. Þar segir að gengið verði frá svæðinu í maí og gestir eru beðnir afsökunar á raskinu.


Tengdar fréttir

Sela­laugin í Hús­dýra­garðinum stækkuð á næsta ári

Til stendur að stækka selalaugina í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Hönnun er að hefjast og er lagt upp með að framkvæmdir hefjast á næsta ári. Kostnaður er enn óljós en í fjárfestingaráætlun Reykjavíkurborgar eru áætlaðar 100 milljónir króna í verkefnið.

Selirnir í óásættanlegri stöðu í Húsdýragarðinum

Aðstaða selanna í Húsdýragarðinum er óásættanleg að sögn borgarfulltrúa Pírata. Til skoðunar er að stækka laugina og endurskoða stefnu garðsins varðandi fjölgun dýranna. Óþarft sé að dýrin geti af sér afkvæmi sem leidd eru til slátrunar á haustin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×