Það var Ciro Immobile sem kom heimamönnum í Lazio í forystu með marki á 34. mínútu, rúmum tíu mínútum eftir að Gabriel Strefezza hafði misnotað vítaspyrnu fyrir gestina.
Remi Oudin jafnaði hins vegar metin fyrir Lecce á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Oudin var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik þegar hann kom Lecce í forystu, en Þórir Jóhann kom inn af varamannabekknum fyrir markaskorarann þegar um átta mínútur voru til leiksloka.
Það var ekki fyrr en á fjórðu mínútu uppbótartíma að heimamenn náðu loksins að finna jöfnunarmarkið þegar Sergej Milinkovic-Savic kom boltanum í netið og þar við sat.
Niðurstaðan því svekkjandi jafntefli fyrir Þóri og félaga í Lecce sem nú sitja í 16. sæti með 32 stig eftir 35 leiki, fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið. Lazio situr hins vegar í þriðja sæti deildarinnar með 65 stig.