Fótbolti

Nagelsmann tekur ekki við Tottenham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Julian Nagelsmann verður ekki næsti stjóri Tottenham.
Julian Nagelsmann verður ekki næsti stjóri Tottenham. Marius Becker/picture alliance via Getty Images

Julian Nagelsmann mun ekki taka við sem þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham eftir að hann var látinn fara frá Bayern München í mars á þessu ári.

Tottenham hefur verið án þjálfara síðan að Antonio Conte var látinn taka poka sinn í mars á þessu ári og höfðu heyrst sögusagnir um það að Nagelsmann væri einn þeirra sem félagið væri að skoða sem mögulegan næsta þjálfara liðsins.

Nú berast hins vegar fregnir af því að engar viðræður milli Tottenham og Nagelsmann hafi átt sér stað og að félagið horfi annað.

Stuðningsmenn Tottenham verða því að bíða eitthvað lengur með að fá að vita hver næsti þjálfari liðsins verður, en meðal þeirra sem hafa verið nefndir í því samhengi eru þeir Roberto de Zerbi, þjálfari Brighton, og Vincent Kompany, þjálfari Burnley.

Tottenham situr í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 57 stig þegar liðið á þrjá leiki eftir, sex stigum á eftir Manchester United sem situr í fjórða sætinu, og þarf því á kraftaverki að halda til að vinna sér inn sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×