Innlent

Segir mjög góðan rök­stuðning þurfa ef halda á á­fram hval­veiðum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Svandís segir að verið sé að safna gögnum til þess að taka ákvörðun um hvort hvalveiðum verði haldið áfram eftir þetta ár.
Svandís segir að verið sé að safna gögnum til þess að taka ákvörðun um hvort hvalveiðum verði haldið áfram eftir þetta ár. Vísir/Bjarni

Matvælaráðherra segir mjög góðan rökstuðning þurfa til þess að hvalveiðar verði stundaðar áfram en reglugerð um veiðarnar rennur út eftir yfirstandandi veiðitímabil. Sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem vilja halda veiðunum til streitu.

Ný skýrsla Matvælastofnunar varpar dökku ljósi á fyrirkomulag hvalveiða. Það taki of langan tíma að aflífa dýrin og MAST telur sérstaka ástæðu til að farið verði ítarlega yfir öll gögn og í kjölfarið metið hvort veiðar á stórhvelum geti uppfyllt markmið laga um velferð dýra. Þá hefur Dýralæknafélag Íslands sent frá sér yfirlýsingu og vill stöðva veiðarnar tafarlaust.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra segir málið alvarlegt en ekki sé hægt að afturkalla veiðileyfi fyrir núverandi vertíð.

„Ráðuneytið mitt er á þeim stað og það eru ákveðna forsendur sem ég verð að viðhafa sem embættismaður og ráðherra. Ég get ekki gert annað en það sem er skýr lagaheimild fyrir. Sú framkvæmd sem fór fram í fyrrasumar, hún er ekki í samræmi við meginmarkmið dýraverndunarlaga og það hlýtur að teljast alvarlegt og það hlýtur að teljast mikil ábyrgð þess aðila að tryggja velferð dýra við aflífun.“

Núverandi reglugerð um hvalveiðar rennur út eftir þetta veiðiár, Svandís segir góðan rökstuðning þurfa til þess að halda veiðunum áfram.

„Til þess að halda áfram hvalveiðum þá þarf að rökstyðja það mjög vel. Nú erum við að viða að okkur gögnum sem lúta að dýravelferð, gögnum sem lúta að hlutverki hvala í vistkerfum og áhrif veiðana á loftslagsmál. Við erum að viða að okkur gögnum varðandi efnahagsleg áhrif af hvalveiðum. Þannig að í þessu eins og öðru vil ég undirbyggja mína ákvörðun mjög vel og ég hef sagt það áður að sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem vilja halda þessu áfram.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×