Innlent

Dýra­lækna­fé­lag Ís­lands segir ráð­herra bera að stöðva hval­veiðar tafar­laust

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„DÍ telur því engar líkur að úrbætur verði á komandi veiðitímabili hvað varðar skilvirkni umræddrar veiðiaðferðar.“
„DÍ telur því engar líkur að úrbætur verði á komandi veiðitímabili hvað varðar skilvirkni umræddrar veiðiaðferðar.“ Vísir/Egill

Dýralæknafélag Íslands segir skýrslu Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar sýna með óyggjandi hætti að sú aflífunaraðferð sem notuð sé og samykkt brjóti gegn meginmarkmiðum laga um velferð dýra.

Ráðherra beri því að stöðva veiðarnar tafarlaust.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu DÍ. Þar segir einnig að stjórn félagsins hafi sent ráðherra erindi hvað þetta varðar og vonist til að hagsmunir dýranna verði settir ofan öðrum hagsmunum.

„DÍ telur skýrsluna staðfesta að sú tækni sem notuð er við veiðar á stórhvelum í dag geti ekki uppfyllt þau viðmið sem teljast ásættanleg út frá dýravelferð (lög nr. 55/2013 um velferð dýra). Í þessu samhengi skal helst nefna of lágt hlutfall þeirra dýra sem drepst samstundis eða fljótt eða um 67% og sú staðreynd að um 33% dýranna þurfa að heyja langt dauðastríð,“ segir í yfirlýsingunni.

Ekki sé hægt að bera saman skilvirkni aflífunar á dýrum undir stýrðum aðstæðum og á villtum dýrum til veiðar. Líklega sé ekki til nein aflífunaraðferð sem tryggi 100 prósent tafarlaust meðvitundarleysi við hvert dráp en markmiðið hljóti að vera eins nálægt 100 prósent og mögulegt sé.

„Því meira sem við fjarlægjumst það markmið bregðumst við um leið þeirri siðferðislegu skyldu okkar að tryggja velferð þeirra dýra sem við nýtum til afurða,“ segir í yfirlýsingunni.

Félagið leggur einnig áherslu á að ekki sé hægt að sjá að nein framþróun hafi orðið á þeim aðferðum sem notaðar eru við veiðar á stórhvelum. 

„DÍ telur því engar líkur að úrbætur verði á komandi veiðitímabili hvað varðar skilvirkni umræddrar veiðiaðferðar og því er ljóst að heimili ráðherra veiðar er um leið verið að samþykkja brot á velferð þessara dýra, þar sem vitað er að hluti þeirra mun alltaf þurfa að líða þjáningar og kvalir af mannavöldum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×