Fótbolti

Bielsa tekur við landsliði Úrúgvæ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo Bielsa er ekki lengur atvinnulaus en hér sést hann á tíma sínum sem knattspyrnustjóri Leeds.
Marcelo Bielsa er ekki lengur atvinnulaus en hér sést hann á tíma sínum sem knattspyrnustjóri Leeds. EPA-EFE/Martin Rickett

Marcelo Bielsa, fyrrum knattspyrnustjóri Leeds United, hefur samþykkt að taka við úrúgvæska landsliðinu.

Jorge Casales, stjórnarmaður í knattspyrnusamband Úrúgvæ, staðfesti þetta við Associated Press sem og að samningur Bielsa sé fram yfir heimsmeistaramótið 2026.

„Það eina sem vantar er að undirrita samninginn,“ sagði Jorge Casales en hinn 67 ára gamli Bielsa er þar að gera 39 mánaða samning.

Bielsa stýrir liðinu væntanlega í fyrsta sinn í júní þar sem liðið spilar vináttulandsleiki við Níkaragva og Kúbu. Undankeppni HM í Suður-Ameríku hefst síðan í september.

„Við erum að koma inn með mann sem mun skilja eftir arfleifð sem nær lengra en bara þessar níutíu mínútur af fótboltaleik,“ sagði Casales.

Úrúgvæ komst ekki upp úr riðlinum á HM í Katar og það er búist við því að reyndustu leikmenn liðsins hafi lokið landsliðsferli sínum.

Bielsa þekkir það vel að þjálfa landslið. Hann var landsliðsþjálfari Argentínu frá 1998 til 2004 og þjálfari einnig landslið Síle frá 2007 til 2011.

Hann hefur síðan stýrt mörgum félagsliðum á ferlinum eins og Espanyol, Athletic Club, Marseille og Lille. Bielsa hefur aftur á móti verið atvinnulaus síðan að Leeds rak hann í febrúar 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×