Innlent

„Það er Alma sem slær tóninn og hinir elta“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður leigjendasamtakanna gefur lítið fyrir málsvörn leigusala.
Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður leigjendasamtakanna gefur lítið fyrir málsvörn leigusala. Vísir/Vilhelm

For­maður Sam­taka leigj­enda segir ekki rétt að Alma leigu­fé­lag sé ekki verð­leiðandi á leigu­markaði hér á landi. Alma slái tóninn með hækkunum og al­mennir leigu­salar elti. Hann hvetur leig­jendur hjá Ölmu til að hafna hækkunum fé­lagsins.

Til­efnið er pistill Gunnars Þórs Gísla­sonar, stjórnar­for­manns leigu­fé­lagsins Ölmu sem birtist á Vísi í dag. Þar segir hann meðal annars að ó­sann­gjarnt sé að ætla að ein­stök dæmi um miklar hækkanir á leigu­verði eigi við um allan markaðinn. Alma sé á engan hátt verð­leiðandi á leigu­markaðnum, með einungis fjögurra prósenta markaðs­hlut­deild.

Segir leig­endur geta hafnað hækkunum

Guð­mundur Hrafn Arn­gríms­son, for­maður Sam­taka leigj­enda, ræddi pistil Gunnars Þórs í Reykja­vík Síð­degis á Bylgjunni í dag. Hlusta má á við­talið neðst í fréttinni.

„Nú er það bara svo að lang­stærstur hluti þeirra erinda sem við fáum inn þar sem fólk er mjög hrætt um stöðu sína eru leigj­endur frá Ölmu, sem eru að fá miklar hækkana­til­kynningar og þetta er að hrúgast inn hjá þeim akkúrat núna.“

Guð­mundur segir að Sam­tök leigj­enda túlki húsa­leigu­lög þannig að ef að leigu­sali ætli að hækka húsa­leigu við nú­verandi eig­anda þá þurfi hann að sýna leigjandanum fram á að hann þurfi þess, sé miðað við 53. grein húsa­leigu­laga þar sem for­gangs­réttur leig­enda sé tryggður.

„Ef leigu­sam­bandið heldur á­fram þá má hann ekki hækka leigu­samninginn nema hann sýni fram á að hann þurfi þess. Þá getur hann annað hvort gert það með því að líta á markaðs­verð á svipaðri eign á sama stað eða sýna fram á kostnaðar­auka. Þeir gera það bara ekki og ég hvet bara leigj­endur Ölmu til þess að hafna hækkunum fyrir­tækisins vegna þess að það er hol­skefla í gangi núna.“

Segir Ölmu markaðs­ráðandi

Guð­mundur segir sam­tökin ekki fá slík erindi vegna annarra leigu­fé­laga. Meira og minna séu það allt leigj­endur Ölmu sem leiti til sam­takanna.

„Þetta eru meira og minna allt leigj­endur Ölmu sem að blöskrar þessar hækkanir sem eru langt um­fram verð­lag. Þetta fé­lag hefur mikil á­hrif,“ segir Guð­mundur.

„Þó að hann nefni þarna í greininni að fé­lagið sé nú bara fjögur prósent af markaðnum, þá er þetta markaðs­ráðandi fé­lag. Þetta er markaðs­ráðandi fé­lag bæði varðandi þróun á hús­næðis­leigu og ekkert síður þróun á fast­eigna­verði.“

Almennir leigusalar hækki líka

Að­spurður um al­menna leigu­sala á markaði og hvort þeirra hækkanir séu sam­bæri­legar hækkunum Ölmu segir Guð­mundur að verð­lags­eftir­lit sam­takanna sýni fram á það.

„Við erum að sjá það að húsa­leiga hefur hækkað tugi prósenta um­fram það sem hin opin­bera vísi­tala segir sem þýðir að hinn venju­legi leigu­sali hann er að fylgja þessari þróun. Það er Alma sem slær tóninn og hinir elta vegna þess að það er svo mikill skortur og svo mikil sam­keppni um í­búðir að leigu­salar sjá tæki­færi í því að hækka húsa­leigu.“

Hann segir af og frá að betra á­stand sé á leigu­markaði í dag heldur en áður. Tölur og kannanir sýni fram á það.

„Við erum að fá hérna kannanir trekk í trekk í trekk sem sýna fram á alveg skelfi­lega stöðu leig­enda. Skelfi­lega stöðu og fé­lags­legan harm.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×