Fótbolti

Pep segir að það yrðu risastór mistök að ætla að leita hefnda á móti Real

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tapið á Estadio Santiago Bernabeu í fyrra er örugglega eitt það sárasta á ferli Pep Guardiola.
Tapið á Estadio Santiago Bernabeu í fyrra er örugglega eitt það sárasta á ferli Pep Guardiola. Getty/Alvaro Medranda

Manchester City hefur aldrei unnið Meistaradeildina en liðið hefur sjaldan átt betri möguleika en á þessari leiktíð.

Liðið í fyrra datt út í undanúrslitum keppninnar á móti Real Madrid eftir að hafa fengið á sig tvö mörk í uppbótartíma og tapað svo í framlengingu. Real Madrid fór síðan alla leið og vann úrslitaleikinn á móti Liverpool.

Real Madrid stendur nú annað árið í röð í vegi fyrir City mönnum í undanúrslitunum og fyrri leikurinn er á Bernabeu-vellinum í kvöld. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vill ekki líta á þetta sem stund hefndarinnar.

Guardiola vill nefnilega alls ekki að sínir menn séu að pæla í því sem gerðist í fyrra.

„Það yrðu risastór mistök,“ sagði Pep Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við erum ekki mættir hingað til að leita hefnda. Það sem gerðist gerðist. Það alltaf þannig í fótbolta að þú átt uppskeruna skilið,“ sagði Pep.

„Við gerðum meira en allt til að komast í úrslitaleikinn í fyrra en stundum er það ekki nóg. Lærdómurinn er sá að við þurfum bara að ná í góð úrslit, standa okkur vel og gefa okkur möguleika að tryggja okkur inn í úrslitaleiknum í seinni leiknum í Manchester,“ sagði Pep.

„Þetta var mjög erfitt í fyrra en þá áttum við frábæran fyrri leik í Manchester og spiluðum líka góðan leik hér. Það var bara ekki nóg. Þú óskar andstæðingi þínum til hamingju, sættir þig við úrslitin og nú ári síðar þá erum við hérna á ný,“ sagði Pep.

„Þetta er bara annað tækifæri fyrir okkur. Einn daginn þá munum við komast í úrslitaleikinn og vinna hann. Það gerðist ekki í fyrra af því að Real Madrid þekkir vel hvað þarf til í þessari keppni,“ sagði Pep.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×