Innlent

Segir Kópa­vog hafa þegar tekið við fjölda flótta­manna

Kjartan Kjartansson og Helena Rós Sturludóttir skrifa
Ásdís Kristjánsdóttir er bæjarstjóri Kópavogsbæjar.
Ásdís Kristjánsdóttir er bæjarstjóri Kópavogsbæjar. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjóri Kópavogs vísar til húsnæðisskorts og vanfjármögnunar sem ástæður þess að bærinn hafi ekki gert samning við ríkið um móttöku flóttamanna. Kópavogur hafi engu að síður þegar tekið við ríflega hundrað flóttamönnum.

Vinir Kópavogs, sem á tvo fulltrúa í bæjarstjórn Kópavogsbæjar, fullyrti í dag að það væri með öllu óskiljanlegt að meirihlutanum í Kópavogi hefði ekki enn tekist að ganga frá samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks, um tíu mánuðum eftir að þeir voru tilbúnir af hálfu ríkisins. Vísaði félagið allri ábyrgð á bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir í skriflegu svari til fréttastofu rétt að halda því til haga að Kópavogsbær hafi nú þegar tekið á móti ríflega hundrað flóttamönnum. 

Hún segir bæinn vera með málið til skoðunar. Bæjarstjórn vilji taka vel ígrundaðar ákvarðanir í þessu sem öðru. Horfa þurfi til þess að nægt húsnæði sé til staðar og að nú þegar sé skortur þar á. 

Þá bendi útreikningar bæjarins til þess að samningurinn við ríkið sé vanfjármagnaður og því þurfi að huga að því hvar Kópavogur ætli að skera niður ef tekin verður ákvörðun um að taka á móti fleira flóttafólki en bærinn geri nú þegar.

Helga Jónsdóttir, annar bæjarfulltrúa Vina Kópavogs, sagði við fréttastofu í dag að húsnæðis- og aðstöðuskortur væri ekki einskorðaður við Kópavog. Önnur sveitarfélög í sambærilegri stöðu tækju þátt í verkefninu þrátt fyrir það.


Tengdar fréttir

„Það er mikill smánar­blettur fyrir sveitar­fé­lagið“

Félagið Vinir Kópavogs segja með öllu óskiljanlegt að meirihlutanum í Kópavogi hafi ekki enn tekist að ganga frá samningi við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks, um tíu mánuðum eftir að þeir voru tilbúnir af hálfu ríkisins. Þau vísa allri ábyrgð til bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar í Kópavogi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×