Fótbolti

Napoli ítalskur meistari í fyrsta sinn í þrjátíu og þrjú ár

Smári Jökull Jónsson skrifar
Victor Osimhen tryggði Napoli titilinn með jöfnunarmarki sínu.
Victor Osimhen tryggði Napoli titilinn með jöfnunarmarki sínu. Vísir/Getty

Napoli er ítalskur meistari knattspyrnu eftir jafntefli við Udinese í kvöld. Liðið er nú með sextán stiga forystu þegar fimm umferðir eru eftir af deildinni.

Sigur Napoli í Serie A hefur legið í loftinu undanfarnar vikur enda liðið verið með algjöra yfirburði í vetur. Liðið fékk tækifæri til að tryggja sér titilinn á heimavelli í síðustu umferð en mistókst þá að vinna gegn Salernitana.

Í dag kom síðan annað tækifæri og það ætluðu leikmenn Napoli ekki að láta renna sér úr greipum en félagið hefur ekki unnið ítalska titilinn síðan vorið 1990 þegar Diego Maradona lék með liðinu.

Napoli lenti reyndar undir í leiknum í dag. Sandi Lovric kom þá Udinese yfir á 13. mínútu eftir sendingu frá Iyenoma Udogie. Staðan í hálfleik var 1-0 en í upphafi síðari hálfleiks skoraði Victor Osimhen markið sem skipti sköpum.

Stuðningsmenn Napoli fylgdust með leiknum á risaskjá á heimavelli liðsins sem nefndur er eftir Diego Armando Maradona.Vísir/Getty

Hann skoraði þá eftir hornspyrnu og allt ætlaði um koll að keyra meðal stuðningsmanna Napoli. Það sem eftir lifði leiks tókst hvorugu liðinu að skora og fögnuðurinn var gríðarlegur þegar flautað var til leiksloka.

Napoli er nú með sextán stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir. Það má búast við gríðarlegum fagnaðarlátum í Napolíborg á næstu dögum enda stuðningsmenn liðsins afar blóðheitir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×