Innlent

„Sá hópur sem stendur lang­verst eru ein­stæðir for­eldrar“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Kristín Heba Gísladóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar í gær.
Kristín Heba Gísladóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar í gær. Vísir/Vilhelm

Niðurstöður könnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sýna að nærri helmingur fólks á erfitt með að ná endum saman og fjölgar nokkuð í hópnum milli ára. Einstæðir foreldrar og innflytjendur eru þeir hópar sem koma verst út úr könnuninni.

„Sá hópur sem stendur langverst eru einstæðir foreldrar. Þeir koma verr út á öllum þeim mælikvörðum sem við notum til að meta fjárhagslega stöðu og hún er mjög slæm. Sama má segja um stöðu innflytjenda, þeir standa mun verr fjárhagslega en þau sem eru innfædd,“ segir Kristín Heba Gísladóttir, framkvæmdastjóri Vörðu, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Kristín segir að í rannsókninni hafi andleg líðan fólks einnig verið skoðuð. Áberandi hafi verið að ungar konur mælist í miklum mæli með slæma andlega heilsu. 

„Við sjáum líka að einstæðar mæður, ríflega helmingur þeirra er að mælast með slæma andlega líðan og aðeins lægra hlutfall einstæðra feðra. Það er auðvitað áhyggjuefni hversu hátt hlutfall er í ákveðnum hópum fólks.“

Fólk fylgdist með er niðurstöður könnunarinnar voru kynntar í Þjóðmenningarhúsinu í gær.Vísir/Vilhelm

Húsnæðismálin spili stórt hlutverk

Kristín segir að helstu áhyggjur þeirra sem mælast með slæma andlega líðan tengist húsnæðismálum. „Við sjáum að til dæmis eins og einstæðir foreldrar og innflytjendur eru í mun meiri mæli á leigumarkaði og hinum almenna leigumarkaði, þar sem húsnæðiskostnaður er oft gríðarlega hár,“ segir hún.

„Það skapar auðvitað áhyggjur af afkomu sem geta auðvitað smitast yfir í hvernig fólki líður.“

Þá bendir Kristín á að forysta verkalýðshreyfingarinnar hér á landi hefur ítrekað kallað eftir aðgerðum í húsnæðismálum. „Þær kröfur standa enn,“ segir hún.

„Við teljum að ef staðan á húsnæðismarkaði væri betri að þá myndi það smitast yfir í betri fjárhagsstöðu og vonandi betri líðan. Það væri óskastaðan.“

Hægt er að nálgast skýrslu Vörðu um stöðu launafólks á Íslandi í heild sinni hér fyrir neðan.

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×