Fótbolti

Real Madrid að landa Bellingham

Sindri Sverrisson skrifar
Jude Bellingham hefur slegið í gegn með Dortmund og verið í sigti bestu liða Evrópu.
Jude Bellingham hefur slegið í gegn með Dortmund og verið í sigti bestu liða Evrópu. Getty/Joachim Bywaletz

Enski landsliðsmaðurinn Jude Bellingham hefur verið afar eftirsóttur en nú virðist spænska stórveldið Real Madrid hafa haft sigur úr býtum í kapphlaupinu um þennan öfluga miðjumann þýska félagsins Dortmund.

Hinn mjög svo áreiðanlegi Fabrizio Romano, sennilega helsti sérfræðingur heims um félagaskipti í fótboltanum, greinir frá því á Twitter að Real sé nálægt samkomulagi um kaup á Bellingham. Það sé staðfest og að viðræður séu að komast á lokastig.

Samkomulag við leikmanninn sjálfan er nánast í höfn og segir Romano að Juni Calafat, yfirnjósnari hjá Real, sé enn á ný að reynast mikilvægur en honum hefur verið lýst sem algjörum lykilmanni í að fá unga og eftirsótta leikmenn til Real síðustu ár.

Romano segir einnig að búið sé að skipuleggja nýjan fund á milli Real og Dortmund til að ganga frá samningi um kaupin. Vonast sé til þess að málið verði frágengið í þessum mánuði í stað þess að hætta verði á einhverri U-beygju á síðustu stundu.

Bellingham er aðeins 19 ára en hefur sannað sig sem afar góður miðjumaður á þremur leiktíðum með Dortmund í þýsku 1. deildinni. Hann var einnig áberandi með enska landsliðinu á HM í Katar í vetur og hefur leikið 24 A-landsleiki.

Samningur Bellinghams við Dortmund rennur út eftir tvö ár en lengi hefur verið útlit fyrir að hann færi frá félaginu í sumar og hefur hann til að mynda verið orðaður við Manchester City og Liverpool áður en Liverpool dró sig úr kapphlaupinu í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×