Fótbolti

Súrt í Sádí-Arabíu hjá Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvert fer Cristiano Ronaldo?
Hvert fer Cristiano Ronaldo? getty/Khalid Alhaj

Cristiano Ronaldo er ekki lengur ánægður hjá Al Nassr og ku vilja yfirgefa sádí-arabíska félagið aðeins fimm mánuðum eftir að hann kom til þess.

Ronaldo samdi við Al Nassr um áramótin eftir að hafa yfirgefið Manchester United með látum. Portúgalinn fékk risa samning hjá Al Nassr sem færir honum 175 milljónir punda í árslaun.

Það eitt og sér er ekki nóg fyrir Ronaldo sem ku vera ósáttur hjá Al Nassr að því er El Nacional greinir frá. Þar segir að hann ætli að snúa aftur til Evrópu og Real Madrid hafi boðið honum starf. Það er þó ekki sem leikmaður heldur sem sendiherra hjá félaginu sem hann vann fjóra Evrópumeistaratitla með.

Kærasta Ronaldos, Georgina Rodríguez, vill einnig fara aftur til Madrídar þar sem þau hittust upphaflega og bjuggu.

Ronaldo hefur leikið tólf deildarleiki fyrir Al Nassr og skorað tólf mörk. Liðið er í 2. sæti sádí-arabísku úrvalsdeildarinnar með 56 stig, þremur stigum á eftir toppliði Al Ittihad.

Al Nassr rak þjálfarann sinn, Rudi Garcia, á dögunum. Króatinn Dinko Jelicic tók við liðinu til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×