Fótbolti

FC Kaup­manna­höfn á enn mögu­leika á að vinna tvö­falt þrátt fyrir naumt tap

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Bergmann í leik dagsins.
Ísak Bergmann í leik dagsins. Lars Rønbøg/Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson og Hákon Arnar Haraldsson voru báðir í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar þegar liðið tapaði naumlega 3-2 gegn Nordsjælland í fyrri leik liðanna í undanúrslitum danska bikarsins.

Liðin tvö eru í harðri baráttu um danska meistaratitilinn og því má líta á undanúrslitaleikina sem hálfgerða úrslitaviðureign þar sem bæði lið eru talin töluvert sterkari en Silkeborg og Álaborg sem eru einnig í undanúrslitum.

Heimamenn í Nordsjælland komust yfir snemma leiks í dag og var staðan 1-0 þeim í vil í hálfleik. Ísak Bergmann nældi sér í gult spjald skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Í síðari hálfleik gerði FCK breytingar til að jafna leikinn og var Ísak Bergmann tekinn af velli á 57. mínútu.

Diogo Gonçalves jafnaði metin á 65. mínútu og lagði svo upp á Jordan Larsson sem kom FCK yfir sjö mínútum síðar. Heimaliðið lét það ekki á sig fá og jafnaði metin þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Það var svo á síðustu mínútu venjulegs leiktíma sem heimaliðið fékk vítaspyrnu.

Emiliano Marcondes fór á punktinn og sá til þess að Nordsjælland er með eins marks forystu fyrir síðari undanúrslitaleikinn sem fram fer 4. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×