Innlent

Vísa fullyrðingum BSRB um mis­rétti á bug

Bjarki Sigurðsson skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vísir/Arnar

Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) vísar fullyrðingum BSRB um misrétti í launum milli starfsfólks sem heyra undir kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands annars vegar og bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB hins vegar á bug.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÍS þar sem greint er frá atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir hjá meðlimum BSRB. Greint var frá henni í morgun en þá sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, að SÍS væri einbeitt í því að mismuna fólki. 

„Það er búið að semja við bæði ríkið og Reykjavíkurborg þannig að þetta er svona sérmál þar sem að okkar mati blasir við að SÍS er einbeitt í því að mismuna fólki. Staðan er sú að okkar fólk sem eru enn kjarasamningslaus þau starfa oft í sömu störfum eða hlið við hlið inni á sömu vinnustöðum og fólk sem fékk launahækkanir sínar frá 1. janúar síðastliðin. Okkar félagsmenn myndu hækka 25% minna í launum en annað starfsfólk. Það er auðvitað bara hrein og klár mismunun,“ sagði Sonja. 

Í tilkynningu SÍS segir að árið 2020 hafi bæði BSRB og SGS boðist kjarasamningur með gildistíma út september 2023. Með þeim samningi hafi fylgt ný launatafla sem tók gildi nú um áramótin. SGS samþykkti þann samning en ekki BSRB og samdi þess í stað um styttri samningstíma, til 31. mars.

„Krafa forystu BSRB í dag er að félagsmenn þeirra fái engu að síður launatöflu 5 sem þau höfnuðu árið 2020. Sveitarfélögin árétta að þau hafa að fullu efnt kjarasamning sinn við BSRB,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Segir SÍS einbeitt í að mismuna fólki

At­kvæða­greiðsla um verk­fall starfs­manna BSRB í skólum og frí­stunda­heimilum í ná­granna­sveitar­fé­lögum Reykja­víkur hófst núna á há­degi en kjara­deila stéttar­fé­lagsins við Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga hefur siglt í strand. For­maður BSRB segir SÍS ein­beitt í því að mis­muna fólki.

Greiða atkvæði um verkföll í leik- og grunnskólum

Í dag hefst atkvæðagreiðsla ellefu aðildarfélaga BSRB um verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu þeirra við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS). Atkvæðagreiðslunni lýkur á laugardag og verða niðurstöður kynntar þá eftir hádegi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×