Innlent

Segir SÍS einbeitt í að mismuna fólki

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Sonja Ýr segir að ljóst sé að þjónusta verði skert í einhverjum leikskólum og jafnvel muni koma til lokana.
Sonja Ýr segir að ljóst sé að þjónusta verði skert í einhverjum leikskólum og jafnvel muni koma til lokana. BSRB

At­kvæða­greiðsla um verk­fall starfs­manna BSRB í skólum og frí­stunda­heimilum í ná­granna­sveitar­fé­lögum Reykja­víkur hófst núna á há­degi en kjara­deila stéttar­fé­lagsins við Sam­band ís­lenskra sveitar­fé­laga hefur siglt í strand. For­maður BSRB segir SÍS ein­beitt í því að mis­muna fólki.

Kjaradeilan hefur verið í hnút í talsverðan tíma en samþykki félagsmenn BSRB verkfallsaðgerðirnar munu þær hefjast í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum í Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ.

Atkvæðagreiðslunni lýkur á hádegi næstkomandi laugardag og myndu um 1500 manns taka þátt í fyrstu verkfallsaðgerðum sem fyrirhugað er að væru dagana 15. og 16. maí. Frekari aðgerðir eru þó fyrirhugaðar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB segir áhrif verkfallana geta verið víðtæk.

„Atkvæðagreiðslan snýr að kjaradeilu ellefu aðildarfélaga BSRB vegna kjaradeilu við SÍS. Þetta er í stuttu máli starfsfólk sem starfar hjá sveitarfélögum um land allt utan Reykjavíkur. Í leikskólunum eru þetta leikskólaliðar og annað fólk sem er í þjónustu við börnin. Í grunnskólunum eru þetta skólaliðarnir og annað starfsfólk fyrir utan kennara og á frístundaheimilum eru þetta frístundaleiðbeinendur.“

Mögulega kæmi til einhverra lokana.

„Ef að niðurstaðan verður sú að félagsfólk okkar ákveður að fara í verkföll þá mun það vafalaust hafa þau áhrif að einhverjir leikskólar þurfa að senda börn heim og jafnvel loka. Sömuleiðis að frístundaheimilin verði lokuð eða skert þjónusta þar sem og í grunnskólunum.“

Búið er að semja við ríki og borg en önnur sveitarfélög standa eftir.

„Það er búið að semja við bæði ríkið og Reykjavíkurborg þannig að þetta er svona sérmál þar sem að okkar mati blasir við að SÍS er einbeitt í því að mismuna fólki. Staðan er sú að okkar fólk sem eru enn kjarasamningslaus þau starfa oft í sömu störfum eða hlið við hlið inni á sömu vinnustöðum og fólk sem fékk launahækkanir sínar frá 1. janúar síðastliðin. Okkar félagsmenn myndu hækka 25% minna í launum en annað starfsfólk. Það er auðvitað bara hrein og klár mismunun.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×