Fótbolti

„Ekkert séð frá honum“

Jón Már Ferro skrifar
Stefán Ingi fagnar sigurmarki sínu gegn Val í annarri umferð.
Stefán Ingi fagnar sigurmarki sínu gegn Val í annarri umferð. vísir/Hulda Margrét

Stefán Ingi Sigurðarson kom inn á sem varamaður Breiðabliks í 2-1 tapi liðsins á móti ÍBV. Sérfræðingar Stúkunnar ræddu frammistöðu hans í leiknum.

Lárus Orri Sigurðsson efaðist um að Stefán gæti verið framherji Breiðabliks eins og staðan er í dag. Sá síðarnefndi kom inn á eftir tæpar 70 mínútur og tókst ekki að skora.

„Stefán hefur skorað mörk í vetur og hann skoraði mörk í Lengjudeildinni en ég hef ekkert séð frá honum í neinum af þessum leikjum sem sýnir mér það að hann geti verið þessi stóri, sterki sem er að fara fá boltann, taka hann niður og hleypa liðinu upp og út úr pressu,“ sagði Lárus um Stefán sem skoraði tíu mörk í þrettán leikjum í Lengjudeildinni með HK í fyrra.

Klippa: Stefán Ingi

Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið gagnrýndur fyrir að spila Stefáni ekki meira í upphafi móts. Hann hefur komið inn á sem varamaður í öllum þremur leikjunum hingað til og skorað tvö mörk. Óskar hefur talað um að fjölmiðlar séu að setja of mikla pressu á Stefán með því að tala hann upp. Eins og fram kom í viðtali á Fótbolti.net. 

Í tapi Breiðabliks á móti HK í fyrstu umferð kom Stefán inn á eftir tæpar 65 mínútur og skoraði tíu mínútum síðar.

Valsmenn fengu Blika í heimsókn í annarri umferð og þá kom Stefán inn á svipuðum tímapunkti og skoraði markið sem gulltryggði sigurinn í uppbótartíma.

Miðað við þessi mörk þá gæti Stefán unnið sig inn í byrjunarlið Breiðabliks sem mætir Fram á föstudaginn í Árbænum á Würth vellinum. Ástæðan fyrir leikstaðnum er að Breiðablik er að skipta um gervigras á Kópavogsvelli.


Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV 2-1 Breiða­blik | Dramatík í Eyjum

ÍBV gerði sér lítið fyrir og lagði ríkjandi Ís­lands­meistara Breiða­bliks á Há­steinsvelli í dag þegar að liðin mættust í Bestu deild karla. Eiður Aron Sigur­björns­son tryggði ÍBV stigin þrjú sem í boði voru með marki úr víta­spyrnu í upp­bótar­tíma venju­legs leik­tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×