Fótbolti

Tuchel gæti misst starfið sitt hjá Bayern

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Farið er að hitna undir Thomas Tuchel.
Farið er að hitna undir Thomas Tuchel. getty/Harry Langer

Svo gæti farið að Thomas Tuchel myndi missa starfið sitt hjá Bayern München aðeins nokkrum vikum eftir að hann var ráðinn.

Þann 24. mars tók Tuchel við Bayern af Julian Nagelsmann sem var látinn taka pokann sinn. Ekki hefur gengið sem skildi síðan Tuchel var ráðinn og Bæjarar hafa aðeins unnið tvo af sjö leikjum undir hans stjórn og eru úr leik í þýsku bikarkeppninni og Meistaradeild Evrópu. Bayern hefur tapað þremur leikjum síðan Tuchel tók við, jafn mörg og liðið tapaði í 37 leikjum undir stjórn Nagelsmanns í vetur.

Samkvæmt Bild mun stjórn Bayern koma saman 22. maí, fimm dögum fyrir lokaleik liðsins á tímabilinu. Þar verður framtíð Tuchels ekki bara til umræðu heldur einnig staða Olivers Kahn, framkvæmdastjóra félagsins, og íþróttastjórans Hasans Salihamidzic. Þeir þykja valtir í sessi.

Kahn tók við starfi framkvæmdastjóra Bayern sumarið 2021 og er samningsbundinn félaginu til 2024. Salihamidzic hefur starfað sem íþróttastjóri Bayern frá 2017.

Bayern missti toppsæti þýsku úrvalsdeildarinnar um helgina. Liðið laut í lægra haldi fyrir Mainz, 3-1, og Borussia Dortmund nýtti tækifærið og skaust á toppinn með 4-0 sigri á Frankfurt. Næsti leikur Bayern er gegn Herthu Berlin á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×