Erlent

Breskri konu með Alzheimer vísað frá Svíþjóð

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hefur 1.100 breskum ríkisborgurum verið vísað frá Svíþjóð.
Eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hefur 1.100 breskum ríkisborgurum verið vísað frá Svíþjóð. Getty Images

Breskri konu á áttræðisaldri hefur verið vísað frá Svíþjóð þar sem henni láðist að leggja fram tilhlýðileg gögn fyrir áframhaldandi dvalarleyfi í landinu. Hún hefur búið þar í tæp 20 ár, er nú rúmföst og með Alzheimer en er vísað úr landi vegna Brexit.

Flutti til Svíþjóðar til að vera nærri fjölskyldu sinni

Kathleen Poole er 74 ára bresk kona sem býr á hjúkrunarheimili í Svíþjóð. Hún flutti til Svíþjóðar fyrir 18 árum til þess að geta verið nærri syni sínum og fjórum barnabörnum. Hún hefur búið á hjúkrunarheimilinu í áratug. Þetta var allt gott og blessað, alveg þangað til Bretland ákvað að ganga úr Evrópusambandinu.

Er rúmföst og ósjálfbjarga

Í dag er hún rúmföst og getur hvorki tjáð sig né gengið. Útlendingastofnunin í Svíþjóð tilkynnti sendiráði Bretlands í Stokkhólmi nýlega að til stæði að vísa Kathleen úr landi þar sem henni hefði láðst að endurnýja tilskilin skilríki eftir Brexit sem gerðu henni kleift að búa áfram í Svíþjóð. Sendiráðinu var m.a.s. ráðlagt að byrja að litast um eftir hjúkrunarheimili handa henni í Bretlandi, en þar á hún enga fjölskyldu.

Málið komst í hámæli, það rataði í fjölmiðla, breskir þingmenn tóku það upp í þinginu og breska utanríkisráðuneytið sendi erindi til Evrópusambandsins í Brussel. Það gerðu einnig nokkur mannréttindasamtök.

Brottflutningi frestað

Sænsk stjórnvöld ákváðu fyrir skömmu að setja brottflutning Kathleen á bið, en segja ákvörðunina engu að síður standa. Málið hefur beint kastljósinu að framferði sænskra stjórnvalda gagnvart Bretum sem búa í Svíþjóð eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Á síðustu tveimur árum hafa sænsk stjórnvöld vísað 1.100 breskum ríkisborgurunum úr landi. Það er um það bil helmingur allra þeirra Breta sem vísað hefur verið úr aðildarríkjum Evrópusambandsins frá því að Bretland yfirgaf ríkjasambandið.

Stjórnvöld mega ekki skipta sér af

Maria Malmer Stenergard, ráðherra innflytjendamála í Svíþjóð, sagði í nýlegri yfirlýsingu að ákvarðanir sænskra ríkisstofnana væru í fullu samræmi við Brexit-samning Bretlands og Evrópusambandsins og að stjórnvöldum væri óheimilt samkvæmt stjórnarskránni að hafa afskipti eða tjá sig um ákvarðanir þeirra. Það er því fátt í kortunum sem bendir til þess að Kathleen Poole fái að verja ævikvöldi sínu umvafin barnabörnum sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×