Erlent

Halda banda­rískum blaða­manni á­fram bak við lás og slá

Kjartan Kjartansson skrifar
Evan Gershkovic í réttarsal í Moskvu í dag.
Evan Gershkovic í réttarsal í Moskvu í dag. AP/Alexander Zemlianitsjenkó

Rússneskur dómari úrskurðaði að Evan Gershkovich, bandarísku blaðamaður Wall Street Journal, verði áfram í varðhaldi eftir að hann var sakaður um njósnir í Rússlandi. Gershkovich og bandarísk stjórnvöld vísa ásökunum á bug.

Gershkovic var handtekinn af rússneskum leyniþjónustumönnum í Katrínarborg í mars. Hann var sakaður um að reyna að komast yfir leyniskjöl um rússneska vopnaverksmiðju. Hann er fyrsti bandaríski blaðamaðurinn sem er handtekinn í Rússlandi fyrir meintar njósnir frá falli Sovétríkjanna.

Fjöldi blaðamanna var í dómssal í Moskvu þegar Gershkovic kom fyrir dómara og krafðist þess að vera látinn laus í dag. AP-fréttastofan segir að hann hafi virst yfirvegaður og jafnvel brosað á köflum inni í glerbúri sakbornings.

Dómari hafnaði áfrýjun blaðamannsins og úrskurðaði hann í áframhaldandi gæsluvarðhald til að minnsta kosti 29. maí. Gershkovic gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisvist verði hann fundinn sekur um njósnir.

Rússnesk stjórnvöld hafa þegar látið í veðri vaka að þau gætu haft fangaskipti á Gershkovic eftir að réttað verður yfir honum. Gagnrýnendur stjórnvalda í Kreml halda því fram að Gershkovic hafi gagngert verið handtekinn í því skyni.


Tengdar fréttir

Rússar hand­taka blaða­mann Wall Street Journal fyrir njósnir

Rússneska leyniþjónustan FSB segist hafa handtekið blaðamann bandaríska blaðsins Wall Street Journal fyrir meintar njósnir. Blaðamaðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi verði hann fundinn sekur um njósnir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×