Íslenski boltinn

Mörkin úr Bestu: Blikar á beinu brautina, marka­maskínan Ekroth og öll hin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Vals og Breiðabliks.
Úr leik Vals og Breiðabliks. Vísir/Hulda Margrét

Öll mörkin úr 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu má sjá hér að neðan. 

Umferðin var spiluð um helgina, þrír leikir á laugardag og svo þrír í gær, sunnudag. Stórleikur helgarinnar var leikur Vals og Breiðabliks að Hlíðarenda. Fór það svo að Íslandsmeistararnir unnu góðan 2-0 útisigur þökk sé mörkum frá Gísla Eyjólfssyni og Stefáni Inga Sigurðarsyni.

Klippa: Besta deild karla: Valur 0-2 Breiðablik

Í Kórnum var Fram í heimsókn. Guðmundur Magnússon er enn sjóðandi heitur og skoraði glæsilegt skallamark. Örvar Eggertsson svaraði fyrir heimamenn þegar hann kláraði færi sitt einkar vel. Hvort hann var rangstæður fáum við aldrei að vita.

Klippa: Besta deild karla: HK 1-1 Fram

Bikarmeistarar Víkings unnu mjög svo þægilegan 2-0 sigur á Fylki í óveðrinu í Víkinni. Birnir Snær Ingason skoraði fyrra markið og miðvörðurinn Oliver Ekroth bætti við öðru marki Víkinga. Ekroth búinn að skora í báðum leikjum liðsins á tímabilinu.

Klippa: Besta deild karla: Víkingur 2-0 Fylkir

Á laugardag tók KA á móti ÍBV á Akureyri. Unnu heimamenn einstaklega sannfærandi 3-0 sigur. Ásgeir Sigurgeirsson, Bjarni Aðalsteinsson og Þorri Mar Þórisson með mörkin.

Klippa: Besta deild karla: KA 3-0 ÍBV

Í Keflavík var KR í heimsókn. Unnu KR-ingar góðan 2-0 útisigur þar sem markverðir beggja liða áttu frábæran leik. Vinstri bakvörðurinn Kristinn Jónsson kom KR á bragðið með marki sem má deila um hvort hafi verið fyrirgjöf eður ei. Hinn ungi Benoný Breki Andrésson kom inn af bekknum og tryggði 2-0 sigur KR.

Klippa: Besta deild karla: Keflavík 0-2 KR

Að lokum vann FH 1-0 sigur á Stjörnunni á Miðvellinum í Hafnafirði. Sindri Kristinn Ólafsson varði vítaspyrnu í stöðunni 0-0 og Vuk Oskar Dimitrijevic tryggði FH svo sigurinn með glæsilegu marki.

Klippa: Besta deild karla: FH 1-0 Stjarnan

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×