Fótbolti

Mark Sæ­vars Atla hjálpaði Lyng­by upp úr botn­sætinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sævar Atli fagnar marki sínu.
Sævar Atli fagnar marki sínu. Lyngby

Landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon var á skotskónum þegar Lyngby komst upp úr botnsæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 2-1 sigri á AC Horsens. Sigurinn gefur liðinu byr undir báða vængi í fallbaráttunni.

Sævar Atli skoraði fyrra mark Lyngby á 25. mínútu og Marcel Romer skoraði sigurmarkið á 72. mínútu. Sævar Atli spilaði nærri allan leikinn í liði Lyngby en hann var tekinn af velli í uppbótartíma.

Kolbeinn Birgir Finnsson spilaði rúman klukkutíma í liði Lyngby á meðan Aron Sigurðarson spilaði síðari hálfleikinn hjá Horsens.

Aron Elís Þrándarson og Stefán Teitur Þórðarson komu báðir inn af bekknum í 2-0 sigri OB á Silkeborg. Aron Elís spilaði tæpar tíu mínútur en Stefán Teitur um það bil hálftíma.

Staðan í neðra umspili dönsku úrvalsdeildarinnar er þannig eftir 25 leiki að Lyngby er í næstneðsta sæti með 20 stig. Horsens er þar fyrir ofan með 20, Silkeborg með 30 og Odense með 34 stig í 8. sætinu.

Enn eru sjö umferðir eftir og sigur Lyngby því gríðarlega mikilvægur í baráttu liðsins um að halda sæti sínu í deildinni en neðstu tvö liðin falla niður í B-deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×