Fótbolti

Ekkert því til fyrirstöðu að velja Gylfa aftur í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu 25 landsliðsmarka sinna.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar einu 25 landsliðsmarka sinna. vísir/vilhelm

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, segir ekkert því til fyrirstöðu að Gylfi Þór Sigurðsson verði valinn aftur í íslenska landsliðið.

Í dag var greint frá því að allar ákærur á hendur Gylfa vegna meintra brota gegn ólögráða einstaklingi, sem sem hann var handtekinn vegna í júlí 2021, væru látnar niður falla. Hann er því laus allra mála og frjáls maður en hann hafði verið í farbanni í Englandi frá því í ágúst 2021.

Gylfi hefur ekki spilað fótbolta frá vorinu 2021 og verið félagslaus síðan samningur hans við Everton rann út sumarið 2022.

Núna getur Gylfi hins vegar fundið sér lið hvar sem hann kýs og samkvæmt Vöndu er ekkert því til fyrirstöðu að nýr þjálfari landsliðsins, Åge Hareide, velji hann í það.

„Ekki samkvæmt reglum KSÍ. Þær eru skýrar hvað þetta varðar. Samkvæmt þeim getur þjálfari valið leikmann þegar ekkert mál er í gangi. Það er undir þjálfaranum komið en það er ekkert í neinum reglum sem kemur í veg fyrir það,“ sagði Vanda í samtali við Stefán Árna Pálsson í dag.

Klippa: Vanda um mál Gylfa

Vanda kvaðst ekki vita hvort Hareide, sem var kynntur sem nýr landsliðsþjálfari í dag, væri meðvitaður um nýjustu vendingar í máli Gylfa. „Ég veit það ekki. Þetta var svolítið dagurinn á hlaupunum,“ sagði Vanda.

Hún kveðst sjálf ekki hafa heyrt í Gylfa en það sé á dagskránni.

„Við höfum verið í þessum þjálfaramálum en við munum gera það sjálfsögðu,“ sagði Vanda.

Gylfi lék síðast með íslenska landsliðinu gegn Danmörku í Þjóðadeildinni 15. nóvember 2020. Það var 78. landsleikur hans. Í þeim skoraði hann 25 mörk. Gylfi er þriðji markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi.


Tengdar fréttir

„Hann fær þessi ár ekki aftur“

„Hann fær aldrei aftur möguleika á að spila þessi tvö ár sem nú eru liðin. Maður veit því aldrei hvað hefði getað orðið,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands, um Gylfa Þór Sigurðsson sem eftir tæplega tveggja ára bið er nú laus allra mála í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×