Innlent

Vara við tor­tryggi­legum Toyota-gjafa­leik

Máni Snær Þorláksson skrifar
Svikasíðan auglýsti gefins Toyota Hilux bíl í dag. Fjölmargir Íslendingar hafa tekið þátt í „gjafaleiknum.“
Svikasíðan auglýsti gefins Toyota Hilux bíl í dag. Fjölmargir Íslendingar hafa tekið þátt í „gjafaleiknum.“ Facebook

„Enn eitt svindlið á Facebook,“ segir í upphafi færslu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birtir á Facebook-síðu sinni í dag. Færslan er gerð til að vara fólk við gjafaleik sem þúsundir Íslendinga hafa tekið þátt í.

Lögreglan segir að ekki sé um raunverulegan gjafaleik að ræða heldur svindl. „Þetta er svika síða og sennilega vefveiðar,“ segir í færslunni. Vefveiðar er íslenska þýðingin á enska orðinu „phishing“ og á við um það þegar netþrjótar reyna að fá fólk til að fara á vafasamar vefsíður eða ýta á hlekki, oft með gylliboðum.

Slíkt er einmitt að finna í svindlinu sem um ræðir. Þar segir að í tilefni 79 ára afmæli Toyota hafi verið ákveðið að gefa Toyota Hilux bíl sem ekki er hægt að selja vegna rispna og smáskemmda. Í færslunni er sagt að bíllinn verði sendur af handahófi til einhvers sem deilir færslunni og skrifar „til hamingju“ í athugasemd.

 

Þúsundir Íslendinga hafa skrifað athugasemdir og deilt svikafærslunni.Skjáskot

Umrædd Facebook-síða hefur hinis vegar ekkert með Toyota á Íslandi að gera. Ef síðan sem birtir færsluna er skoðuð nánar sést að þar er ekkert að finna nema gjafaleikinn, það er ekki traustvekjandi. Þá er einnig bjöguð íslenska í lýsingunni á síðunni eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan.

Þó svo að tölvuþrjótar hafi náð ágætis tökum á íslenskunni þá gera þeir ennþá mistök. Hér vantar til dæmis stóran staf og á íslensku er ekki talað um að „skrá sig á hnappinn.“Skjáskot

Lögreglan segir að í rauninni sé þetta á suman hátt góð leið til að læra aðeins um svona svindl. 

„Ef þið skoðið tengilinn þá sjáið að þarna er bókstaflega ekkert annað og þar vantar mikið. Farið varlega í að trúa því sem er á netinu og samfélagsmiðlum. Þegar þið sjáið svona kíkið á hver er að baki. Þið sjáið fljótlega hvað það er falskt.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×