Fótbolti

Hand­tekinn grunaður um nauðgunar­til­raun og heróín­vörslu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Boris Klaiman.
Boris Klaiman. Skjáskot

Ísraelski markvörðurinn Boris Klaiman, sem leikur með Volos í grísku úrvalsdeildinni, var handtekinn í gær eftir að 17 ára stúlka sakaði hann um tilraun til nauðgunar.

Klaiman var handtekinn klukkan tvö á aðfaranótt þriðjudags á næturklúbbi í Aþenu, höfuðborg Grikklands. Félag hans, Volos, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem greint er frá því að hvorki hann né annar markvörður liðsins, Rodrigo Escoval, muni leika aftur fyrir félagið.

Escoval var með Klaiman í för þegar hann var handtekinn. Grískir fjölmiðlar greina frá því að stúlkan hafi verið í skólaferðalagi í Grikklandi frá Belgíu.

Grískir miðlar greina frá því að hinn 33 ára gamli Klaiman hafi átt samtal við stúlkuna og þegar hann sá að hún var undir áhrifum hafi hann boðið henni heim. Stúlkan hafi hafnað honum en Klaiman er þá sagður hafa yfirbugað hana og misnotað hana inni á staðnum.

Skólafélagar fórnarlambsins hafi þá stokkið til og ráðist á Klaiman til að verja vinkonu sína, og gengið í skrokk á Ísraelanum.

Alls voru sex manns handtekin af lögreglu, Klaiman og liðsfélagi hans, Escoval, ásamt fjórum Belgum. Eitt og hálft gramm af heróíni fannst þá í vörslu Klaimans.

Volos sendi frá sér tilkynningu daginn eftir atvikið þar sem fram kemur að tvímenningarnir munu ekki spila aftur fyrir félagið. Unnið sé að því að rifta samningum þeirra.

Belgíska stúlkan mun hafa lagt fram ákæru á hendur Klaiman.

Klaiman er Ísraeli af úkraínskum uppruna og á einn landsleik að baki fyrir Ísrael, árið 2016. Hann samdi við Volos árið 2020 en mun nú yfirgefa félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×