Innlent

Guðni og Eliza verða við­stödd krýningu Karls

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson verða viðstödd þegar Karl III verður formlega krýndur konungur Bretlands.
Eliza Reid og Guðni Th. Jóhannesson verða viðstödd þegar Karl III verður formlega krýndur konungur Bretlands. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú munu ferðast til London í byrjun maí til þess að vera viðstödd krýningarathöfn Karls III Bretlandskonungs. Engum ráðherrum var boðið á krýninguna. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari skrifstofu Forseta Íslands við fyrirspurn fréttastofu. 

Krýningarathöfnin fer fram þann 6. maí næstkomandi. Verða þar þjóðhöfðingjar heimsins viðstaddir, þar á meðal forsetahjónin. Þar sem boðið var einungis sent á þjóðhöfðingja verða engir ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur viðstaddir.

Guðni og Eliza ferðast til London þann 5. maí og fara síðan heim daginn eftir athöfnina, þann 7. maí. Ekki er fyrirhuguð þátttaka þeirra í opinberum viðburðum ytra, öðrum en krýningarathöfninni í Westminster Abbey og móttöku í tengslum við hana í Buckinghamhöll. 

Engir starfsmenn embættisins munu fylgja þeim út, en skrifstofa forseta á í góðu samstarfi við sendiráð Íslands í London sem aðstoðar forsetahjónin eftir þörfum ytra.

Greint var frá því í dönskum fjölmiðlum í dag að Margrét Danadrottning yrði ekki viðstödd athöfnina þar sem hún er enn að jafna sig eftir aðgerð á baki sem hún undirgekkst í febrúar. 


Tengdar fréttir

„Ég vona að þau verði látin sitja á Íslandi“

Harry Bretaprins og Meghan Markle hefur verið boðið að vera viðstödd krýningu föður hans Karls III Bretakonungs 6. maí næstkomandi en ef marka má heimildarmenn Daily Mail hyggjast meðlimir konungsfjölskyldunnar hunsa þau ef þau mæta.

Karl Breta­konungur fær sinn eigin kórónu-emoji

Í tilefni af krýningu Karls þriðja Bretakonungs þann 6. maí næstkomandi hefur Buckingham-höll greint frá nýju opinberu kórónutjákni (e. emoji) sem verður tekið í gagnið frá morgundeginum.

Karl III verði krýndur næsta vor

Karl III Bretlandskonungur verður krýndur þann 6. maí næstkomandi. Hann hefur sinnt embætti konungs frá andláti móður sinnar Elísabetar II Bretlandsdrottningar í september síðastliðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×