Erlent

Greindi ekki frá lúxusferðum sem hann þáði frá Repúblíkana

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Clearence Thomas hefur starfað við hæstarétt Bandaríkjanna frá árinu 1991 og  er reynslumesti dómarinn við réttinn.
Clearence Thomas hefur starfað við hæstarétt Bandaríkjanna frá árinu 1991 og er reynslumesti dómarinn við réttinn. Getty

Clarence Thomas, dómari við hæstarétt Bandaríkjanna, hefur á síðustu árum þegið margra milljóna króna lúxusferðir frá þekktum bakhjarli Repúblikanaflokksins. Thomas, sem er jafnan talinn íhaldssamasti dómarinn við réttinn, greindi aldrei frá þessum gjöfum, eins og honum bar að gera lögum samkvæmt.

Freitaveitan ProPublica greindi frá þessum gjöfum í vikunni og hafa fréttirnar vakið ansi hörð viðbrögð meðal Demókrata. Kallað er eftir kæru á hendur Thomas fyrir embættisglöp. Fulltrúadeildarþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez kallar meðal annars eftir því á Twitter:

„Þetta er meira en flokkapólitík eða blind flokkshollusta. Þetta stig spillingar er yfirgengilegt - hreinlega kjánalegt. Það verður að ákæra Thomas fyrir embættisglöp.“

Auðjöfurinn, sem gaf Thomas ferðirnar umræddu, er Dallasbúinn Harlan Crow. Crow hefur hefur á undanförnum áratugum stutt Repúblikanaflokkinn rausnarlega. Framlög hans til pólitískra hópa innan flokksins nema 10 milljónum dollara. Auk þess hefur hann stutt íhaldssaman baráttuhóp eiginkonu Thomas um hálfa milljón dollara. 

Fram kemur að Thomas hafi á undanförnum árum reglulega ferðast með einkaþotum og snekkjum Crow. Þá hafi hann einnig dvalið í sumarhúsi milljarðarmæringsins og blandað þar geði með valdamiklum mönnum innan Repúblikanaflokksins.

Meðal ferða sem Thomas þáði er ferð til Indónesíu árið 2019, sem er talin hafa kostað því sem nemur 70 milljónum króna. Yfir tuttugu ára skeið á Thomas að hafa þegið slíkar ferðir um það bil árlega án þess að greina frá því í árlegri gjafaskrá dómara. Dómurum er skylt að greina frá slíkum gjöfum samkvæmt löggjöf sem samþykkt var í kjölfar Watergate-skandalsins árið 1974.

Í yfirlýsingu kveðst Thomas hafa fengið þá ráðgjöf frá samstarfsfélögum að hann þyrfti ekki að greina frá „per­sónu­legri gest­risni af þessu tagi frá nán­um per­sónu­leg­um vin­um sem ekki tengjast dóms­mál­um“. Hann muni hins vegar fylgja reglunum framvegis. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×