Fótbolti

Roon­ey stillti Guð­laugi Victori upp á miðjunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðlaugur Victor í leik með íslenska landsliðinu á dögunum.
Guðlaugur Victor í leik með íslenska landsliðinu á dögunum. Alex Nicodim/Getty Images

Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn á miðri miðju DC United í markalausu jafntefli í MLS deildinni í Bandaríkjunum. Íslendingarnir í deildinni hafa átt betri daga en þann í dag.

Guðlaugur Victor, sem stóð vaktina í hægri bakverðinum þegar Ísland tapaði 3-0 fyrir Bosníu-Hersegóvínu og vann Liechtenstein 7-0 í undankeppni EM á dögunum, var stillt upp á miðjunni þegar lærisveinar Wayne Rooney náðu í stig gegn Chicago Fire á útivelli.

Guðlaugur Victor spilaði allan leikinn sem var stál í stál þar sem lítið sem ekkert var af góðum færum. Lokatölur 0-0 og DC United nú með fimm stig í 13. sæti Austurdeildar.

Dagur Dan Þórhallsson kom inn af varamannabekk Orlando City þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Nashville SC. Dagur Dan spilaði aðeins síðustu 10 mínútur leiksins eða svo en staðan var þá þegar orðin 2-0.

Orlando City er í 7. sæti Austurdeildar.

Róbert Orri Þorkelsson kom inn af varamannabekk CF Montréal þegar liðið steinlá gegn Vancouver Whitecaps, lokatölur 5-0. CF Montréal missti mann af velli í stöðunni 0-0 en leikur liðsins hrundi undir lok fyrri hálfleiks. Róbert Orri spilaði 35 mínútur en staðan var þegar orðin 4-0 þegar hann kom inn af bekknum.

CF Montréal er á botni Austurdeildar með 3 stig.

Þá sat Þorleifur Úlfarsson allan tímann á varamannabekk Houston Dynamo er liðið tapaði 2-1 fyrir San Jose Earthquakes. Eftir tapið er Houston í 8. sæti Vesturdeildar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.