Erlent

ISIS-systur aftur komnar til Noregs

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlenskir Kúrdar eru með þúsundir kvenna sem tilheyrðu ISIS og börn þeirra í haldi. Kúrdar segjast ekki hafa burði til að halda þeim og eru aðstæður í búðunum sagðar mjög slæmar. Lítið sem ekkert hefur gengið að fá heimaríki þeirra til að taka á móti þeim.
Sýrlenskir Kúrdar eru með þúsundir kvenna sem tilheyrðu ISIS og börn þeirra í haldi. Kúrdar segjast ekki hafa burði til að halda þeim og eru aðstæður í búðunum sagðar mjög slæmar. Lítið sem ekkert hefur gengið að fá heimaríki þeirra til að taka á móti þeim. EPA/AHMED MARDNLI

Tvær systur frá Bærum í Noregi og þrjú börn þeirra hafa verið flutt frá Sýrlandi til Noregs. Konurnar tilheyra hóp sem kallaður hefur verið „eiginkonur ISIS“ en þær gengu til liðs við hryðjuverkasamtökin á árum áður.

Undanfarin ár hafa þær verið í haldi sýrlenskra Kúrda.

Frá því konurnar og börnin lentu í Noregi á aðfaranótt miðvikudags hafa þau verið undir eftirliti lækna. Konurnar verða þó færðar í fangelsi á næstunni og þá líklega í næstu viku, samkvæmt frétt Aftonposten.

Systurnar fóru til Sýrlands árið 2013, þega þær voru sextán og nítján ára gamlar. Norska öryggislögreglan gaf út handtökuskipun á hendur þeim árið 2017. Báðar giftust þær vígamönnum Íslamska ríkisins í Sýrlandi en þeir féllu í átökum.

Konurnar eru nú 25 og 29 ára gamlar og eru sakaðar um að hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtök. Börnin verða með konunum þar til í næstu viku en þá verða þau líklega færð í umsjá Barnaverndar í Noregi.

Sjá einnig: Fæddust í „ríki“ sem er ekki lengur til og eiga hvergi skjól

Þær verða yfirheyrðar á næstu dögum svo finna megi út hvaða hlutverki þær gegndu á tímum kalífadæmisins. Hæstiréttur Noregs hefur úrskurðað að hefðbundin heimilisstörf og það að vera gift vígamanni ISIS sem barðist fyrir hryðjuverkasamtökin, getur verið skilgreint sem þátttaka í hryðjuverkastarfsemi.

Önnur spurning sem rannsakendur vilja svara er hvernig þær ferðuðust til Sýrlands. Konurnar halda því fram að þær séu fórnarlömb mansals.

Tugir þúsunda í haldi Kúrda

Sýrlenskir Kúrdar hafa verið með mikinn fjölda erlendra vígamanna og erlendra kvenna í haldi frá því kalífadæmi Íslamska ríkisins féll.

Eftir fall kalífadæmisins gátu ISIS-liðar frá Sýrlandi og Írak snúið aftur til síns heima en erlendir vígamenn og erlendar konur gátu það ekki. Samkvæmt frétt Rudaw, sem er miðill sem rekinn er í írakska Kúrdistan, eru þúsundir manna enn í haldi sýrlenskra Kúrda. 

Erfiðlega hefur gengið að fá ráðamenn heimaríkja þeirra að taka aftur á móti konunum og börnum þeirra.

Sjá einnig: Kalla enn eftir því að losna við konur og börn Íslamska ríkisins

Því hafa margar konur verið um árabil í áðurnefndum fangabúðum í Sýrlandi við slæmar aðstæður. Systrunum hefur verið haldið í búðum sem kallast Al Roj og í búðum sem kallast Al Hol en aðstæður hafa verið slæmar í öllum þessum búðum. Rudaw segir um fimmtíu þúsund manns í Al Hol búðunum.

Tvær norskar konur enn í Sýrlandi

Systurnar báðu um aðstoð yfirvalda í Noregi en ráðamenn þar samþykktu að flytja þær til Noregs, barnanna vegna. Áður höfðu yfirvöld boðist til þess að flytja eingöngu börn þeirra til Noregs en það samþykktu þær ekki.

Á vef NRK segir að minnst ellefu norskar konur hafi farið til Sýrlands á árum áður. Búið er að finna sex þeirra en hinar eru taldar týndar eða látnar.

Tvær konur með norskan ríkisborgararétt er enn sagðar í Sýrlandi. Ein þeirra heitir Aisha Shazadi Kausar og er með eitt barn. Henni ku vera haldið í Al Roj búðunum. Svo er ónafngreind 36 ára gömul kona frá Levanger í Al Hol búðunum. Hún er barnlaus.

Ein af ástæðum þess að illa hefur gengið að fá heimaríki þessa fólks til að taka aftur við þeim er að erfitt getur verið að sanna að viðkomandi hafi gengið til liðs við hryðjuverkasamtök, þar sem það var í flestum tilfellum ekki ólöglegt að ferðast til Sýrlands.

Þá eru yfirvöld víða á Vesturlöndum rög við að fangelsa menn og konur ISIS af ótta við að þau dreifi boðskap sínum í fangelsum og jafnvel fengið aðra fanga til að aðhyllast samtök eins og ISIS.


Tengdar fréttir

ISIS-brúður tapar á­frýjun gegn sviptingu ríkis­borgara­réttar

Shamima Begum, ung kona sem fæddist í Bretlandi en gekk sem unglingur til liðs við Ríki íslams í Sýrlandi, tapaði áfrýjun gegn ákvörðun breskra stjórnvalda að svipta hana ríkisborgararétti í gær. Lögmaður hennar segir að baráttunni sé hvergi nærri lokið.

Þrjár ISIS-konur ákærðar í Danmörku

Yfirvöld í Danmörku hafa ákært þrjár konur fyrir að ganga til liðs við Íslamska ríkið. Konurnar fóru til Sýrlands á árum áður og giftust þar vígamönnum hryðjuverkasamtakanna. Eftir fall Kalífadæmisins voru konurnar og fjórtán börn þeirra í Roj-búðum í norðausturhluta Sýrlands.

Einn Bítla ISIS dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi

El Shafee Elsheikh var í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi í Bandaríkjunum fyrir að hafa komið að dauða fjögurra bandarískra gísla. Hann var hluti alræmds hóps vígamanna Íslamska ríkisins sem gekk undir nafninu Bítlarnir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×