Fótbolti

Vildu ekki hýsa Ísraelsmenn og missa HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úkraína varð heimsmeistari tuttugu ára landsliða í fótbolta árið 2019.
Úkraína varð heimsmeistari tuttugu ára landsliða í fótbolta árið 2019. Getty/TF-Images

Alþjóða knattspyrnusambandið hefur ákveðið að heimsmeistaramót tuttugu ára landsliða fari ekki fram í Indónesíu í ár eins og var búið að ákveða.

Indónesía átti að halda heimsmeistaramótið sem fer fram frá 20. maí til 11. júní næstkomandi.

Landið missir mótið í framhaldi að því að riðladrættinum var frestað.

Ríkisstjóri eyjarinnar Balí neitaði að hýsa ísraelska landsliðið en íbúar á eyjunni eru að mestu Hindúatrúar.

„FIFA hefur ákveðið, vegna núverandi aðstæðna, að taka heimsmeistaramót U-20 árið 2023 af Indónesíu,“ sagði í yfirlýsingu frá Alþjóða knattspyrnusambandinu.

„Nýr gestgjafi verður tilkynntur eins fljótt og auðið er en dagsetningar mótsins standa enn óbreyttar. Mögulegar refsingar indónesíska knattspyrnusambandsins verða einnig ræddar seinna,“ sagði enn fremur í yfirlýsingunni.

Ákvörðunin var tekin eftir fund á milli Gianni Infantino, forseta FIFA og Erick Thohir, stjórnarformanns indónesíska knattspyrnusambandsins.

Mikill fótboltaáhugi er í Indónesíu þrátt fyrir að landslið þjóðarinnar hafi ekki komist á HM síðan 1938 en þá keppti það sem Hollensku Austur-Indíur.

Mótmæli höfðu verið í höfuðborginni Jakarta í þessum mánuði þar sem fólk veifaði indónesískum og palestínskum fánum og heimtuðu að Ísrael fengi ekki að keppa á heimsmeistaramótinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.