Svona var umhorfs í Starmýri í Neskaupstað eftir snjóflóðið í gærmorgun. Landsbjörg
Ekkert hefur frést af frekari snjóflóðum á Austfjörðum í nótt og hefur veðrið verið með rólegasta móti.
Þetta sagði vakthafandi ofanflóðasérfræðingur Veðurstofunnar í samtali við fréttastofu á sjöunda tímanum í morgun. Hann segir þó von á úrkomubakka á Austfjörðum annað kvöld.
Nokkur snjóflóð féllu á Austfjörðum í gær – þar af þrjú í Neskaupstað en einnig á Reyðarfirði, í Mjóafirði og á Seyðisfirði. Óvissustig er í gildi á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu og hættustig í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði.
Ákveðið var að fara af neyðarstigi Almannavarna og niður á hættustig á sjöunda tímanum í gær. Þetta var ákveðið eftir að ljóst var að tökum hafði verið náð á ástandinu og að enginn væri talinn í bráðri hættu.
Rúður brotnuðu í húsum í Neskaupstað.Landsbjörg
Ekkert skólahald verður í leik- og grunnskólum í Neskaupsstað þar sem snjóflóðin féllu í gærmorgun og heldur ekki á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Auk þess mun ekkert skólahald verða í Verkmenntaskóla Austurlands heldur.
Í tilkynningu frá Fjarðabyggð segir að á öllum þessum stöðum sé þungfært víða á götum og göngustígum auk þess sem rýming er enn í gildi á Eskifirði og í Neskaupstað og gildir hún í það minnsta fram eftir morgni. Staðan verður tekin á nýjan leik í morgunsárið og gefin út tilkynning upp úr klukkan 11.
Þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað í morgun og þá hafa snjóflóð fallið í Mjóafirði og á Reyðarfirði utan byggðar. Íbúi í Neskaupstað segir atburðina erfiða fyrir marga og áminning um mannskæð snjóflóð í bænum fyrir hálfri öld.
Að minnsta kosti þrjú snjóflóð féllu í morgun í Neskaupstað og síðan þá hafa önnur flóð fallið fyrir austan. Fjölmargir viðbragðsaðilar hafa streymt austur og eru til taks ef fleiri flóð verða. Að sögn lögreglustjórans á Austurlandi líður fólki á svæðinu illa.
Þegar snjóflóð féllu á Neskaupstað í morgun var neyðarstigi Almannavarna lýst yfir. Nú hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi ákveðið að fara af neyðarstigi niður á hættustig.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.