Þetta segir Alina Ruprecht, blaðakona hjá 90min.de í Þýskalandi. „Besti varnarmaður heims núna,“ skrifaði hún á Twitter eftir 1-0 sigur Bayern á Wolfsburg í toppslag þýsku úrvalsdeildarinnar á laugardaginn.
The best defender in the world rn. pic.twitter.com/4UBRGOSmj4
— Alina (@alina_rxp) March 26, 2023
Glódís hefur spilað stórvel með Bayern að undanförnu. Hún fékk til að mynda mikið hrós fyrir frammistöðu sína í 1-0 sigri á Arsenal í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku.
Með sigrinum á Wolfsburg í fyrradag komst Bayern á topp þýsku úrvalsdeildarinnar. Liðið er tveimur stigum á undan Wolfsburg þegar sex umferðum er ólokið.
Glódís hefur leikið hverja einustu mínútu í öllum sextán deildarleikjum Bayern á tímabilinu og skorað tvö mörk. Liðið hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk.
Hin 27 ára kom til Bayern frá Rosengård sumarið 2021. Hún er ein þriggja íslenskra landsliðskvenna hjá Bayern ásamt Cecelíu Rán Rúnarsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Næsti leikur Bayern er gegn Arsenal í Lundúnum á miðvikudaginn. Bayern mætir svo Meppen í þýsku úrvalsdeildinni á sunnudaginn áður en landsleikjahlé tekur við.