Erlent

Sam­göngu­starfs­menn í alls­herjar­verk­fall vegna verð­bólgunnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Gera má ráð fyrir verulegum samgöngutruflunum í Þýskalandi í dag.
Gera má ráð fyrir verulegum samgöngutruflunum í Þýskalandi í dag. AP/Michael Probst

Þjóðverjar búa sig undir verulegar raskanir á samgöngum í dag þegar starfsmenn almenningssamgangna leggja niður störf í 24 klukkustundir til að krefjast hærri launa vegna hækkandi verðbólgu.

„Kjarabarátta án afleiðinga er bitlaus,“ sagði Frank Werneke, formaður Verdi, næststærstu verkalýðssamtaka Þýskalands, í samtali við Phoenix. Hann sagði aðgerðirnar myndu hafa áhrif á fjölda fólks en það væri betra að knýja fram samninga með aðgerðum í einn dag frekar en draga þær á langinn í margar vikur.

Verkfallsaðgerðirnar ná til starfsmanna lesta, flugvalla og hafna.

Verdi semur fyrir 2,5 milljónir starfsmanna hins opinbera en félagið EVG 230 þúsund starfsmenn lesta og hópferðabifreiða. Félögin gera kröfur um 10,5 til 12 prósenta launahækkanir.

 Viðsemjendur félaganna hafa neitað að koma til móts við kröfurnar og hafa í staðinn boðið 5 prósenta hækkun og tvær eingreiðslur up pá 1.000 og 1.500 evrur, aðra á þessu ári og hina á næsta.

Deutsche Bahn hefur aflýst öllum lengri ferðum í dag og mörgum styttri. Forsvarsmenn DB segja aðgerðirnar ónauðsynlegar og hafa hvatt verkalýðsfélögin til að setjast aftur að samningaborðinu.

Samtök flugvalla segja aðgerðirnar óréttlætanlegar og segja þær munu hafa áhrif á um 380 þúsund flugfarþega. 

Verðbólga í Þýskalandi stendur nú í 8,7 prósentum og atvinnurekendur segja launakröfur verkalýðsfélaganna olíu á verðbólgubálið. Félögin saka fyrirtækin hins vegar um að ætla félagsmönnum sínum að axla byrðarnar af hækkandi verðlagi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.