Fótbolti

Ein­kunnir úr sigrinum gegn Liechten­stein: Margir góðir en Aron og Jón Dagur báru af

Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir að þrennan var komin í hús.
Aron Einar Gunnarsson fagnar eftir að þrennan var komin í hús. Harry Langer/DeFodi Images via Getty Images

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta vann vægast sagt öruggan 7-0 sigur er liðið heimsótti Liechtenstein í Vaduz í undankeppni EM 2024 í dag. Eftir að hafa aðeins skorað tvö mörk í fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttirnar í þeim síðari og margir leikmenn íslenska liðsins geta gengið sáttir frá borði.

Það var ljóst strax frá fyrstu mínútu að liðsmenn Liechtenstein höfðu engan áhuga á því að vera mikið með boltann í leik dagsins. Íslenska liðið sótti því án afláts og gátu andað léttar þegar skot bakvarðarins Davíðs Kristjáns Ólafssonar fór af varnarmanni og í netið strax á þriðju mínútu.

Íslenska liðið skoraði þrjú mörk til viðbótar í fyrri hálfleik, en tvö þeirra voru dæmd af vegna brots í aðdraganda þeirra. Staðan var því aðeins 2-0 í hálfleik, en landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði þrennu fyrir liðið í síðari hálfleik áður en varamennirnir Andri Lúcas Guðjohnsen og Mikael Egill Ellertsson bættu sínu markinu hvor við á lokamínútunum.

Þá má einnig minnast á frammistöðu Jóns Dags Þorsteinssonar í dag, en hann lagði upp þrjú mörk fyrir liðsfélaga sína, þar af tvö fyrir landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson. Hér fyrir neðan má sjá einkunnagjöf Íþróttadeildar Vísis eftir leik dagsins.

Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður 6

Lítið sem ekkert er líklega ekki nógu sterkt orðatiltæki til að lýsa því sem Rúnar Alex hafði að gera í markinu. Landsliðsmarkvörðurinn er líklega ekki að fara að skrá þennan leik niður sem einn af þeim skemmtilegustu sem hann hefur spilað, enda fékk hann varla að sjá boltann allan leikinn.

Guðlaugur Victor Pálsson, hægri bakvörður 7

Var sýnilegur á hægri kantinum framan af leik og tók virkan þátt í sóknarleik liðsins lengst af. Engar flugeldasýningar, en skilaði sínu.

Aron Einar Gunnarsson, miðvörður 9

Landsliðsfyrirliðinn skoraði sitt þriðja landsliðsmark og þriðja (löglega) mark Íslands í leiknum þegar hann stangaði hornspyrnu Jóns Dags í netið í upphafi fyrri hálfleiks. Skoraði svo aftur nánast alveg eins mark eftir hornspyrnu Jóns Dags á 67. mínútu og var þá búinn að tvöfalda heildarfjölda landsliðsmarka sinna áður en hann fullkomnaði þrennuna með marki úr vítaspyrnu rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok. Lagði einnig upp annað mark liðsins fyrir Hákon Arnar og getur gengið afar sáttur frá sínum 101. landsleik.

Hörður Björgvin Magnússon, miðvörður 6

Rólegur dagur hjá Herði Björgvini í miðverðinum. Eins og allt íslenska liðið hafði hann lítið að gera varnarlega og þegar hinn miðvörðurinn í liðinu skorar þrennu og leggur upp eitt til viðbótar er algjör óþarfi fyrir Hörð að vera að leggja allt of mikið til sóknarlega.

Davíð Kristján Ólafsson, vinstri bakvörður 7

Skoraði fyrsta mark Íslands strax á þriðju mínútu með skoti sem fór af varnarmanni. Heimamenn ætluðu sér greinilega að liggja aftarlega og treysta á þétta vörn og því var gríðarlega mikilvægt að koma inn marki snemma, þó vissulega hafi verið smá heppnisstimpill yfir því.

Stefán Teitur Þórðarson, miðjumaður 7

Átti fínan leik á miðsvæðinu. Í rauninni fátt annað um leik hans að segja en eins og Guðlaugur Victor var þetta engin flugeldasýning hjá Stefáni, en fínasta dagsverk engu að síður.

Jóhann Berg Guðmundsson, miðjumaður 6

Skilaði fínni vakt á miðsvæðinu og dreifði boltanum ágætlega fyrir framan þéttan varnarmúr heimamanna í fyrri hálfleik. Var tekinn af velli í hálfleik fyrir Mikael Neville Anderson.

Hákon Arnar Haraldsson, miðjumaður 8

Kom íslenska liðinu í 2-0 með virkilega góðu marki stuttu fyrir hálfleikshléið eftir fyrirgjöf frá Aroni Einari Gunnarssyni. Tók boltann niður og snéri af sér varnarmann í einni snertingu áður en hnitmiðað skot fann netið. Skoraði svo aftur stuttu síðar eftir fallegt samspil, en markið dæmt af vegna brots eftir skoðun í VAR-skjánum góða.

Arnór Sigurðsson, hægri kantmaður 7

Eins og margir sem tóku minni þátt í sóknarleik og mörkum íslenska liðsins var Arnór kannski ekki jafn sjáanlegur og aðrir. Skilaði dagsverkinu þó ágætlega áður en hann var tekinn af velli á 65. mínútu.

Jón Dagur Þorsteinsson, vinstri kantmaður 8

Lagði upp fyrstu mörk Arons Einars Gunnarssonar með góðum hornspyrnum. Sama uppskrift í bæði skiptin, enda á ekki að laga eitthvað sem er ekki bilað. Fullkomnaði svo stoðsendingarþrennuna þegar hann lagði upp sjöunda mark liðsins fyrir Mikael Egil Ellertsson. Einn allra besti maður íslenska liðsins í dag.

Alfreð Finnbogason, framherji 6

Nokkuð rólegur dagur hjá Framherja íslenska liðsins. Skoraði reyndar mark í fyrri hálfleik, en var dæmdur brotlegur í aðdragandanum.

Varamenn:

Mikael Neville Anderson, 6 - Kom inn fyrir Jóhann Berg Guðmundsson á 46. mínútu

Leysti einn reynslumesta mann liðsins af hólmi í síðari hálfleik og sýndi í raun lítið eftir það. Allt í lagi dagur fyrir Mikael, en ekkert frábært.

Alfons Sampsted, 6 - Kom inn fyrir Hörð Björgvin Magnússon á 64. mínútu

Eins og maðurinn sem hann kom inn á fyrir hafði Alfons lítið að gera.

Mikael Egill Ellertsson, 7 - Kom inn fyrir Arnór Sigurðsson á 64. mínútu

Skoraði sjöunda mark Íslands á 87. mínútu. Hans fyrsta landsliðsmark og með því tryggði hann stærsta sigur Íslands í opinberum mótsleik.

Andri Lúcas Guðjohnsen, 7 - Kom inn fyrir Alfreð Finnbogason á 64. mínútu

Fiskaði vítið sem tryggði þrennuna fyrir landsliðsfyrirliðann áður en hann skoraði sjálfur sjötta mark liðsins stuttu fyrir leikslok. Fínasta innkoma.

Ísak Bergmann Jóhannesson, 6 - Kom inn fyrir Aron Einar Gunnarsson á 75. mínútu

Aron Einar Gunnarsson fékk heiðursskiptingu þegar þrennan var í húsi og Ísak Bergmann Jóhannesson leysti hann af hólmi. Fékk nokkuð stuttan tíma á vellinum og kom raunar aðeins við sögu þegar úrslitin voru löngu ráðin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×