Fótbolti

„Það var ekki hátt risið á landsliðsfyrirliðanum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Eiður Smári var fyrirliði Íslands í einu versta, ef ekki allra versta tapi í sögu liðsins. Þrír úr teymi Íslands byrjuðu leikinn einnig.
Eiður Smári var fyrirliði Íslands í einu versta, ef ekki allra versta tapi í sögu liðsins. Þrír úr teymi Íslands byrjuðu leikinn einnig. Mynd/Daníel

Þrír í teymi íslenska karlalandsliðsins eiga afar slæmar minningar frá Vaduz hvar Ísland sækir Liechtenstein heim í undankeppni EM í dag. Þar varð liðið niðurlægt fyrir fimmtán árum síðan. Ísland mætir Liechtenstein á ný í dag.

„Það var ekki hátt risið á landsliðsfyrirliðanum Eiði Smára Guðjohnsen eftir leikinn við Liechtenstein: Allir strákarnir í liðinu þurfa að líta í eigin barm“ segir fyrirsögn Óskars Ófeigs Jónssonar um 3-0 tap Íslands fyrir Liechtenstein í Vaduz árið 2007.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson og aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Jóhannes Karl Guðjónsson voru báðir í byrjunarliði Íslands er liðið galt þetta fræga afhroð. Ívar Ingimarsson, formaður landsliðsnefndar og stjórnarmaður KSÍ, sem er með í för í Liechtenstein, var þá einnig í byrjunarliðinu.

„Við vorum einfaldlega niðurlægðir,“ sagði Eyjólfur Sverrisson eftir tapið en Ísland fékk aðeins eitt stig úr tveimur viðureignum við Liechtenstein í undankeppni EM 2008. 1-1 jafntefli á Laugardalsvelli og 3-0 tap ytra.

Umfjöllun Óskars Ófeigs Jónssonar um tapið í Vaduz árið 2007.Mynd/Fréttablaðið

„Segðu af þér, Eyjólfur“ var fyrirsögn Henrys Birgis Gunnarssonar í Fréttablaðinu eftir leikinn hér heima þar sem liðin skildu jöfn 1-1. Það var fyrir leikinn ytra þar sem niðurlægingin var algjör, líkt og Eyjólfur sagði sjálfur.

Liechtenstein hefur verið á agalegu skriði undanfarið og tapaði hverjum einasta leik sem liðið spilaði á síðasta ári. Síðasti sigur liðsins kom í október árið 2020.

Það kemur því ekkert til greina annað en íslenskur sigur þegar liðin eigast við í undankeppni EM 2024 í Vaduz í dag.

Arnar Þór og Jóhannes Karl spiluðu báðir leikinn slæma í Vaduz 2007.Vísir/Diego



Fleiri fréttir

Sjá meira


×