Fótbolti

Önnur veikindi í íslenska hópnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þórir Jóhann Helgason spilaði ekki gegn Bosníu.
Þórir Jóhann Helgason spilaði ekki gegn Bosníu. Ahmad Mora/DeFodi Images via Getty Images

Þórir Jóhann Helgason æfði ekki með íslenska karlalandsliðinu í Liechtenstein í dag vegna veikinda. Hann verður að líkindum ekki í hópnum í leik morgundagsins.

Ísak Bergmann Jóhannesson var veikur fyrr í ferðinni og tók ekki þátt í fyrstu æfingu liðsins í Munchen á mánudag. Eitthvað hafa veikindin dreift úr sér því Þórir Jóhann er frá vegna slíkra.

„Eins og staðan er núna eru allir heilir, nema Þórir sem var eftir á hótelinu. Hann er smá veikur og við verðum að taka stöðuna á honum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi í dag.

Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Guðlaugur Victor Pálsson voru á meðal manna sem tóku takmarkaðan þátt á æfingunni í Vaduz í dag en Arnar sagði á fundinum það einfaldlega vera til að hafa þá sem ferskasta á morgun.

Ísland mætir Liechenstein klukkan 16:00 á morgun. Leiknum verður lýst beint á Vísi og verður landsliðinu fylgt vel eftir fram að leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×