Fótbolti

„Ég les mjög lítið af fréttum þegar ég veit þær eru um mig“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar Þór á blaðamannafundinum í Vaduz í dag.
Arnar Þór á blaðamannafundinum í Vaduz í dag. Vísir/Sigurður Már

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, segist lítið lesa af umræðunni um hans störf. Mikil neikvæð umræða hefur umlukið liðið síðan á fimmtudag.

Fjölmargir hafa kallað eftir breytingu á landsliðsþjálfara eftir slæmt 3-0 tap Íslands fyrir Bosníu á fimmtudagskvöld. Arnar Þór segist lesa sem minnst.

„Ég hef haft þá reglu alveg frá því að ég var leikmaður að ég les mjög lítið af fréttum þegar ég veit þær eru um mig. Fyrir mig er það hið eina rétta,“ sagði Arnar á blaðamannafundi fyrir leik Íslands við Liechtenstein í dag.

Hann kveðst meðvitaður um umræðuna en þurfi að ýta henni til hliðar og einblína á verkefnið sem fram undan er.

„Auðvitað er ég meðvitaður um (umræðuna) en ég er ekki fæddur í gær. Ég les nánast ekkert en er meðvitaður um að fólk er fúlt og við erum fúlir líka,“

„Fyrir mér er þetta líka það að við þurfum að gera okkur grein fyrir að þetta var erfiður útileikur. Við erum hundfúlir að hafa ekki náð að gera betur, við ætlum okkur að stíga upp og bæta okkar leik á morgun. Það er það sem er mikilvægast í þessu,“

„En ég þarf sem þjálfari að beina allri þessari umræðu frá mér núna og einbeita mér að því sem ég þarf að gera. Það er að undirbúa liðið fyrir morgundaginn,“ segir Arnar Þór.

Ísland mætir Liechenstein klukkan 16:00 á morgun. Leiknum verður lýst beint á Vísi og verður landsliðinu fylgt vel eftir fram að leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×