Fótbolti

Fyrr­verandi for­­sætis­ráð­herra Svía kjörinn for­­maður sænska knatt­­spyrnu­­sam­bandsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Fredrik Reinfeldt er nýr formaður sænska knattspyrnusambandsins.
Fredrik Reinfeldt er nýr formaður sænska knattspyrnusambandsins. Twittersíða sænska knattspyrnusambandsins

Fredrik Reinfeldt er nýr formaður sænska knattspyrnusambandsins en þessi fyrrverandi forsætisráðherra Svía var kjörinn formaður á þingi sambandsins nú í morgun.

Fredrik Reinfeldt var forsætisráðherra Svía á árunum 2006 til 2014 en hann var kandídat valnefndar sænska knattspyrnusambandsins í kjörinu. Aðrir frambjóðendur buðu sig þó fram og að lokum stóð valið á milli Reinfeldt og Lars-Christer Olsson en Olsson var áður framkvæmdastjóri evrópska knattspyrnusambandsins UEFA.

Reinfeldt hlaut 143 atkvæði í kjörinu á móti 111 atkvæðum Olsson og er því nýr formaður sænska knattspyrnusambandsins.

„Þetta hefur verið langt ferli. Ég vill þakka Lars-Christer Olsson sem fékk mörg atkvæði hér í dag,“ sagði Reinfeldt eftir að úrslit kosninganna voru ljós.

„Ég veit hverjar áskoranirnar eru. Það þarf meira fjármagn og það þarf að deila því þannig að það sé hægt að spila knattspyrnu í öllu landinu, konur jafnt sem karlar og á mismunandi stigum, deildum og á öllum aldri. Allt þetta er mikilvægt,“ sagði Reinfeldt ennfremur.

Meðal þeirra mála sem Reinfeldt þarf að taka að sér núna eru málefni myndbandsdómgæslu en sænsk félög hafa nær endregið sett sig upp á móti því að VAR verði tekið upp í deildum í Svíþjóð. Sænskir dómarar hafa gagnrýnt þetta og segja möguleika þeirra á alþjóðlegum störfum minnka verulega verði VAR ekki tekið upp í Svíþjóð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.