Fótbolti

Skyldusigur gegn slöku liði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum við Bosníu á fimmtudag.
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í leiknum við Bosníu á fimmtudag. Vísir/Getty

Ísland á að vinna Liechtenstein örugglega í Vaduz í undankeppni EM 2024 á morgun. Gestgjafarnir hafa ekki unnið leik síðan í október 2020.

Liechtenstein hefur leikið 26 leiki í röð án þess að vinna. Liðið tapaði 4-0 fyrir Portúgal í fyrsta leik sínum í riðli Íslands á fimmtudagskvöldið.

Síðasti sigur Liechtenstein var í æfingaleik gegn Lúxemborg í október 2020. Fyrr sama ár vann liðið San Marínó á útivelli í Þjóðadeildinni 2-1 en gerði svo markalaust jafntefli við smáþjóðina á heimavelli.

Á síðasta ári tapaði liðið hverjum einasta leik sem það spilaði. Það lék þá aftur í Þjóðadeildinni og tapaði báðum leikjum sínum við Moldóvu, Lettland og Andorra í riðli sínum. Liechtenstein tapaði 6-0 fyrir Grænhöfðaeyjum, 1-0 fyrir Færeyjum og 2-0 fyrir Gíbraltar í æfingaleikjum sínum þess utan.

Ísland mætir því liði sem er vant að tapa á morgun. Það kemur ekkert annað en sigur til greina eftir slaka frammistöðu í Bosníu á fimmtudagskvöldið.

Íslenska liðið lenti í Friedrichshafen í Þýskalandi í gær og gistir í Austurríki í aðdraganda leiks. Það keyrir svo stuttan spöl yfir til Liechtenstein í dag og æfir á keppnisvellinum í Vaduz.

Ísland mætir Liechenstein klukkan 16:00 á morgun. Leiknum verður lýst beint á Vísi og verður landsliðinu fylgt vel eftir fram að leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.