Fótbolti

Á láni frá Arsenal en flaug til Flórída til að reyna að skipta um landslið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Folarin Balogun á ferðinni í leik með Stade de Reims.
Folarin Balogun á ferðinni í leik með Stade de Reims. Getty/Sylvain Lefevre

Arsenal framherjinn Folarin Balogun er upptekinn í landsleikjahléinu við að reyna að skipta yfir í bandaríska landsliðið.

Hinn 21 árs gamli Balogun hefur staðið sig frábærlega í frönsku deildinni en þó ekki nógu vel til að komast í enska landsliðið eða vera kallaður aftur úr láni til Arsenal.

Balogun hefur skorað 17 mörk í 27 leikjum fyrir Reims í frönsku deildinni og aðeins þeir Kylian Mbappe og Jonathan David hafa skorað fleiri. Þegar Gabriel Jesus meiddist þá kallaði Arsenal samt ekki í hann úr láni.

Balogun hefur spilað með yngri landsliðum Englands en ekki fengið kallið í A-landsliðið.

Hann dróg sig út úr enska 21 árs landsliðinu í þessum landsleikjaglugga vegna óskilgreindra meiðsla.

Hann má spila með þremur landsliðum því hann er fæddur í New York í Bandaríkjunum, alinn upp í Englandi og þá eru foreldrar hans frá Nígeríu.

Það bjuggust flestir við að hann reyndi að komast í enska landsliðið en áhugi frá því bandaríska hefur fengið hann til að skipta.

„Í lífinu ferðu þangað þar sem þú ert metinn að verðleikum,“ skrifaði Folarin Balogun á samfélagsmiðla sem ýtir undir það að hann vilji komast í landslið og þá það bandaríska.

Bandaríska landsliðið er nú statt í Flórída til að undirbúa sig fyrir leik á móti Grenada í kvöld og á móti El Salvador á mánudaginn. Balogun er sagður hafa flogið til Flórída til að ræða málin.

Það eru spennandi tímar hjá bandaríska landsliðinu enda ung spennandi kynslóð að taka við og Bandaríkjamenn á heimavelli á næsta heimsmeistaramóti.

Það er líka staðreynd samkvæmt frétt ESPN að bandaríska knattspyrnusambandið hefur verið á eftir Balogun í marga mánuði en nú virðist hann vera búinn að fá nóg að því að bíða eftir kallinu frá enska landsliðsþjálfaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×