Fótbolti

Baldur Logi færir sig yfir í Garðabæinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Baldur Logi í leik með FH.
Baldur Logi í leik með FH. Vísir/Hulda Margrét

Baldur Logi Guðlaugsson er genginn til liðs við Stjörnuna í Bestu deild karla en tilkynnt var um félagaskiptin á Instagramsíðu Stjörnunnar í dag.

Baldur Logi kemur í Garðabæinn úr Hafnarfirði en hann er uppalinn FH-ingur. Fótbolti.net greindi frá því á dögunum að Baldur Logi hefði fengið þau skilaboð frá Heimi Guðjónssyni þjálfara að krafta hans væri ekki lengur óskað hjá Fimleikafélaginu.

Baldur Logi hefur leikið 55 leiki í efstu deild og skorað í þeim 4 mörk og þá á hann að baki leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann segir í viðtali við Stjörnumenn að hann sé glaður að vera genginn til liðs við Stjörnuna.

„Verkefnið sem blasir við er mjög spennandi og á sama tíma krefjandi. Ég er spenntur fyrir því að byrja og fyrir komandi sumri í Garðabænum.“

Jökull Elísabetarson, aðstoðarþjálfari Stjörnuliðsins, er sömuleiðis ánægður með viðbótina í hópinn.

„Hann fellur vel inn í hópinn og það sem við erum að gera og styrkir okkur í stöðum þar sem við höfum verið þunnir. Við erum spenntir að vinna með honum og ná honum á fullt í Stjörnutreyjunni.“

Besta deild karla hefst mánudaginn 10. apríl en Stjarnan mætir þá Víkingi á heimavelli sínum í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×